Voru með bláberjablót á Bláberjadögum

Súðavík. Mynd: Þorsteinn Haukur Þorsteinsson.

Bláberjadagar voru haldnir síðastliðna helgi í Súðavík. Hátíðin hófst fimmtudagskvöldið 30. ágúst á því að svokallaðir Heimsmeistaraborgarar voru grillaðir við fótboltavöllinn og svo var keppt í Bláberja HM í fótbolta þar sem foreldrar og börn kepptu. Í hádeginu á föstudeginum voru grillaðar pylsur fyrir börn í kaupfélaginu og um kvöldið var bryddað upp á svokölluðu Bláberjablóti í fyrsta sinn. Gestir komu saman með sitt eigið bláberjatrog í Samkomuhúsinu þar sem skemmtidagskrá var, en bláberjatrog er samheiti yfir allan góðan mat.

Á laugardeginum var mikið fjör fyrir börn sem og fullorðna. Dagskráin hófst strax um morguninn á HM í fótbolta og einnig var barnastuð á Melrakkasetrinu. Eftir hádegi var grillað og var hoppukastali á svæðinu auk þess sem boðið var upp á barnaball í Raggagarði og á Boggutúni. Um kvöldið var svo hverfisgrill í norðurenda Holtagötu og eftir það leiddi Gísli Ægir Ágústsson brekkusöng þar sem mikil stemning myndaðist við brennuna. Dagskráin lauk svo með balli í samkomuhúsinu þar sem hljómsveitin Glæstar Vonir spilaði vel fram á morgun fyrir gesti og gangandi.

Dagskrá helgarinnar lauk með barnabíói klukkan 16:00 á sunnudeginum í samkomuhúsinu. Pétur G. Markan, sveitarstjóri í Súðavík sagði blaðamanni BB að hátíðin hafi gengið vel fyrir sig. „Hátíðin var lengri en oft áður, við bættum við einum degi sem kom vel út. Þetta var frá fimmtudegi til sunnudags. Ég held að það hafi verið almenn ánægja með dagskrána og hvernig til tókst. Þetta er lókal hátíð, hún er vel mönnuð og er alltaf eins sem er gott og við erum ánægð með hana. Þetta var samt í fyrsta skipti sem við reyndum svokallað bláberjablót á föstudeginum. Þetta er keimlíkt þorrablóti og þar koma gestir saman og ræða um hvað er heitast og gera grín að því. Svo er skálað og skemmt sér og við stefnum að því að hafa þetta svipað á næsta ári.“ segir Pétur.

Pétur sagði að lokum að berjasprettan hafi verið allt í lagi í sumar, miðað við það sem hann hafði heyrt. „Ég er nú latur sjálfur að fara að týna, en hún er í lagi og tekur kannski mið af köldu sumri. En þeir sem vilja og leggja á sig þeir fá ber skilst mér.“ segir Pétur að lokum.
Meðfylgjandi myndir tók Þorsteinn Haukur Þorsteinsson með myndavél og dróna.

Aron Ingi
aron@bb.is

DEILA