Vestri átti feiknagott sumar

Vestri vann sinn síðasta leik þetta tímabilið á erfiðum útivelli á Skaganum um síðustu helgi en þar var leikið gegn Kára (varaliði ÍA). Leikurinn vannst 2-1 og var æsispennandi þar sem við vorum á leiðinni í Inkasso-deildina allt fram að 70. mínútu vegna óhagstæðrar stöðu annarra keppinauta. Þá var Afturelding, toppliðið, nefnilega að tapa fyrir Hetti fyrir austan og Vestri að vinna á Skaganum, svo að þetta leit vel út. Mosfellingar tóku hins vegar góðan endasprett og höfðu sigur gegn Hetti sem þýddi að við gátum ekki komist upp fyrir þá og niðurstaðan varð 3. sæti deildarinnar. Það er sannarlega góður árangur en það sást að menn vildu meira, strákarnir voru hálfdaufir í dálkinn þrátt fyrir sigurinn. Gangurinn hefur hins vegar verið góður og þeir vita nú hvað til þarf, Vestri tapaði ekki leik frá 10. júní og átti því fullt erindi í þessa toppbaráttu.

Að leik loknum var haldið lokahóf þar sem að menn tóku saman helstu atburði sumarsins og veittu leikmönnum verðlaun. Þetta góða sumar voru eftirtaldir leikmenn verðlaunaðir en það voru leikmenn sjálfir sem kusu um þessar vegtyllur:

Elmar Atli Garðarsson besti leikmaður tímabilsins

Daniel Osafu-Badu mikilvægasti leikmaðurinn

Pétur Bjarnason markakóngur

Þórður Gunnar Hafþórsson efnilegasti leikmaðurinn

Sæbjörg

bb@bb.is