Útsvarstekjur Ísafjarðarbæjar hækkuðu um 118 milljónir króna

Útsvarstekjur Ísafjarðarbæjar hækkuðu um 118 milljónir króna á fyrstu átta mánuðum ársins, miðað við sama tímabil í fyrra. Þetta kemur fram í gagnagrunni Sambands íslenskra sveitarfélaga. Útsvarstekjur sveitarfélagsins í ár voru 1,279 milljónir en á sama tímabili í fyrra voru tekjurnar samtals 1,161 miljón króna á tímabilinu.

Útsvarið er veigamesti tekjustofn sveitarfélaga og þykir oftast sýna vel hversu hratt hjól atvinnulífsins snúast, þar sem útsvarið er ákveðið hlutfall af launatekjum fólks. Þegar rýnt er í tölurnar, kemur í ljós að útsvarstekjurnar á þessu ári eru hærri í öllum mánuðunum, borið saman við síðasta ár. Þannig voru tekjurnar í ágúst 179 milljóir króna, en í ágúst í fyrra voru útsvarstekjur Ísafjarðarbæjar 162 milljónir króna.

„Útsvar var heldur yfir áætlun fyrstu mánuði ársins. Hinsvegar eru þær þegar litið er á það sem liðið er af árinu u.þ.b. á pari miðað við það sem áætlanir gerðu ráð fyrir.“ Segir Daníel Jakobsson, formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar.

„Tekjur sveitarfélagsins hafa aukist mjög mikið s.l. ár og útsvarið þar með. Það stafar fyrst og fremst af launahækkunum en laun hafa hækkað um 25-30% á s.l. fjórum árum sem skilar sér beint til okkar. Svo er líka nóga vinnu að hafa og íbúum hefur fjölgað m.a. með uppgangi fiskeldis sem farinn er að skipta máli í okkar sveitarfélagi eins og á sunnanverðum fjörðunum. Vonandi heldur þetta bara áfram því það er sannarlega þörf á þessum tekjum enda bíða okkar mörg stór verkefni sem þarf að fjármagna,“ segir Daníel.

Sæbjörg

bb@bb.is