Trillu siglt upp í fjöru undir Stigahlíð við Bolungarvík

Einn maður var um borð en til allrar lukku slapp hann að mestu við meiðsl. Mynd: Hafþór Gunnarsson.

Vísir sagði frá því í gær að björgunarsveitarmenn úr Bolungarvík hafi í fyrradag náð í handfærabát í fjöruna undir Stigahlíð, skammt frá Bolungarvík. Fyrr um daginn hafði bátnum verið siglt upp í stórgrýtta fjöruna. Einn maður var um borð og til allrar lukku slasaðist hann ekki en var nokkuð lemstraður. Hann reyndist hafa sofnað á stíminu heim eftir langa veiðiferð. Björgunarsveitamenn náðu í manninn en töluverðan tíma tók að koma bátnum til Bolungarvíkur þar sem hann var tekinn upp á bryggju.

Halldór Óli Hjálmarsson, hjá Björgunarfélagi Ísafjarðar, sagði í samtali við Vísi að það væri stórt gat á lestinni á bátnum og á stefninu. Erfiðlega gekk að ná bátnum úr stórgrýtinu þar sem steinn stakkst inn í lestina. Þurfti að snúa bátnum til að koma honum aftur út í sjó. Voru björgunarsveitarmenn að störfum fram til klukkan tvö um nóttina.

Ekki er vitað hvers vegna báturinn lenti uppi í fjörunni, en lögreglan á Vestfjörðum rannsakar nú málið.

Sæbjörg
bb@bb.is

DEILA