Þrjú frá Skíðafélagi Ísafjarðar í æfingabúðum á Ítalíu

Anna María, Sigurður og Tormod. Mynd: Skíðasamband Íslands.

Þrír gönguskíðakappar frá Skíðafélagi Ísafjarðar hafa undanfarna viku verið í FIS æfingabúðum fyrir skíðagöngufólk á Ítalíu. Þetta eru þau Anna María Daníelsdóttir, Sigurður Arnar Hannesson og þjálfari þeirra Tormod Vatten. Skíðasambandi Íslands býðst að senda tvo iðkendur sem eru 20 ára og yngri og einn þjálfara í þessar æfingabúðir en Skíðasambandið tók fyrst þátt fyrir tveimur árum. Fimmtán þjóðir tóku þátt að þessu sinni og stóðu æfingarnar frá 2.-12. September. Allar þjóðir þurftu að senda þjálfara með því æfingabúðirnar eru hugsaðar sem þjálfun fyrir þá í leiðinni.

Enginn snjór er þarna á Ítalíu núna svo iðkendur eru að hlaupa, gera styrktaræfingar og fara á hjólaskíði. Lögð er áhersla á undirbúning fyrir veturinn með því að byggja upp þrek, styrk og tækni. Anna María Daníelsdóttir tók þátt í hjólaskíðamóti síðasta laugardag og endaði í 18.sæti. Keppt var með með frjálsri aðferð og farnir 7,5 km.

Sæbjörg
bb@bb.is

DEILA