„Það er ljóst að það þarf að bregðast mjög hratt við“

Lilja Rafney Magnúsdóttir, alþingismaður.

Þingmenn NV kjördæmis hittust núna í hádeginu til að ræða þá grafalvarlegu stöðu sem komin er upp hjá Fjarðarlaxi ehf. og Arctic Sea Farm, vegna þess að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála felldi úr gildi þá ákvörðun Matvælastofnunnar um að veita fyrirtækjunum rekstrarleyfi fyrir 17500 tonna ársframleiðslu á laxi í sjókvíum á Patreksfirði og Tálknafirði.

Lilja Rafney segir: „Þingmannahópurinn fór yfir þær upplýsingar sem hann hefur um málið og lítur mjög alvarlegum augum það sem snýr að fyrirtækjunum, atvinnu og byggð á svæðinu. Það er verið að vinna að viðbrögðum við þessum úrskurði í stjórnarráðinu og við munum meta framhaldið eftir að niðurstöður koma úr því. En það er ljóst að það þarf að bregðast mjög fljótt við og nauðsynlegt að það verði hægt að fresta réttaráhrifum þessa máls, svo svigrúm gefist til að endurmeta framhaldið og mæta því sem þessir formgallar gera kröfur til varðandi leyfisveitingar og umhverfismat.“

Þingmaðurinn benti jafnframt á að þessir formgallar hefðu þegar verið hjá Matvælastofnun þegar fyrirtækin sóttu um rekstarleyfi á síðasta ári. Þegar Fjarðarlax og Arctic Sea farm sóttu um leyfisveitingu þá þurftu fyrirtækin að skila frummatsskýrslu, en ekki var fyrirtækjunum gert ljóst að þau þyrftu að benda á fleiri útfærslur fyrir eldið. Í þessu felst ákveðinn formgalli en rekstrarleyfi fyrir 17500 tonna eldi var veitt í desember 2017.

Sæbjörg
bb@bb.is

DEILA