Styrkja á heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni

Styrking heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni, ásamt greiðara aðgengi að heilsugæslu, lækkun greiðsluþátttöku sjúklinga, framkvæmdir við nýjan Landspítala, öflugri göngudeildarþjónusta, uppbygging hjúkrunarrýma og bætt geðheilbrigðisþjónusta, eru meðal megináherslna á sviði heilbrigðismála sem birtast í fjárlagafrumvarpi ársins 2019. Hækkun framlaga til heilbrigðismála nemur 12,6 milljörðum króna að frátöldum launa- og verðlagshækkunum.

Framlög til heilsugæslu aukin um tæpan milljarð króna
Geðheilbrigðisþjónusta á landsvísu innan heilsugæslunnar verður efld til muna með 650 milljóna króna framlagi til að fjölga geðheilsuteymum og fjölga stöðugildum sálfræðinga. Á næsta ári ætti að nást það markmið gildandi geðheilbrigðisáætlunar um eitt stöðugildi sálfræðings starfi í heilsugæslunni á móti hverjum 9.000 íbúa. Tölur sýna vaxandi sókn í þjónustu heilsugæslunnar. Áfram verður unnið að því að efla hana sem fyrsta viðkomustað sjúklinga, meðal annars með áherslu á aukna teymisvinnu, forvarnir og fræðslu til sjúklinga. Framlög í þessu skyni verða aukin um 200 milljónir króna. Framlög til heimahjúkrunar verða aukin um 100 milljónir króna og 70 milljónum verður varið til að innleiða fyrsta áfanga skimunar fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi.

Tæpur milljarður til að draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga
Áfram verður unnið að því að lækka greiðsluþátttöku sjúklinga. Við innleiðingu nýs greiðsluþátttökukerfis heilbrigðsþjónustu árið 2016 var bætt 1,5 milljarði króna inn í kerfið á ársgrundvelli til að lækka kostnað sjúklinga. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu verður bætt við tæpum 400 milljónum króna til viðbótar í þessu skyni. Auk þess bætast við 500 milljónir króna vegna nýs rammasamnings um tannlækningar aldraðra og öryrkja.
Styrkari rekstrargrundvöllur heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni
Í fjárlögum þessa árs voru veittar 400 milljónir króna til að styrkja rekstrargrundvöll heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni. Í frumvarpinu er miðað við að rekstrargrundvöllur þeirra verði styrktur varanlega með föstu framlagi sem þessu nemur.

Varanlegt fjármagn til að stytta biðlista vegna liðskiptaaðgerða o.fl.
Þriggja ára átaksverkefni um styttingu biðlista vegna tiltekinna aðgerða lýkur á þessu ári. Árleg framlög vegna þess hafa verið 840 milljónir króna. Með fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að fjárhæð sem þessu nemur verði framvegis fastur liður á fjárlögum, þannig að aukning fjármuna til að vinna á löngum biðlistum sé varanleg.

Sæbjörg
bb@bb.is

DEILA