Skotíþróttafélagið og Skíðafélagið óska eftir uppbyggingarsamningi

SFÍ óskar eftir raunhæfum uppbyggingarsamningi við Ísafjarðarbæ.

Á fundi Íþrótta- og tómstundanefndar Ísafjarðarbæjar þann 5. september síðastliðinn var tekin fyrir beiðni frá Skotíþróttafélagi Ísafjarðarbæjar (SÍ) þar sem óskað er eftir uppbyggingarsamningi við Ísafjarðarbæ um áframhaldandi uppbyggingu á innisvæði félagsins. SÍ hefur áhuga á að byggja við inniaðstöðu félagsins við áhorfendastúkuna en áður hefur verið notast við gáma fyrir aðstöðu og klósett. Félagið hefur áhuga á að byggja, í samstarfi við Ísafjarðarbæ, aðstöðu sem sameinar bæði aðstöðu fyrir SÍ og klósett sem almenningur getur notað þegar spilað er á knattspyrnuvellinum og tekið er fram að einnig mun verða pláss fyrir geymslu sem hægt væri að nota fyrir áhöld fótboltavallarins eða fyrir annað sem þörf er fyrr á svæðinu.

Segir í beiðninni að Skotfélagið muni sjá um byggingu og frágang utanhúss og aðstöðu Skotfélagsins og Ísafjarðarbær myndi svo ráðstafa hinum hlutanum eftir þörfum, til dæmis klósettaðstöðu og geymslu eða hvað sem þörf er fyrir. SÍ telur að gámar líkt og notast er við núna sé alls ekki framtíðarlausn og óskar því eftir að Ísafjarðarbær komi að þessari byggingu i samstarfi við félagið.

Á sama fundi var einnig var lögð fram beiðni frá Skíðafélagi Ísfirðinga (SFÍ) sem segir að undanfarin ár hafi Ísafjarðabær veitt fjármuni í uppbyggingasamninga til Skíðafélags Ísfirðinga. Segir í bréfinu að miklar umræður hafa verið undanfarin misseri um framtíð skíðasvæðanna, staðsetningu þeirra og uppbyggingu. Er þá horft til þess að fara í heildstæða hönnun svæðisins með það að leiðarljósi að tengja betur saman göngu- og alpasvæðin, og hækka barnasvæði alpasvæðisinstil að auka líkur þess að komast í tryggari snjóalög.

Tekið er fram í beiðninni að hönnun skíðasvæðisins kosti umtalsverða fjármuni og það er álit stjórnar SFÍ að nauðsynlegt sé að ljúka þeirri vinnu svo hægt sé að gera raunhæfa uppbyggingasamninga. Það er því tillaga félagsins að eftirstöðvar fjármuna uppbyggingasamnings alpasvæðið vegna ársins 2018 og allan styrk ársins 2019 verði varið í að greiða á móti Ísafjarðarbæ fyrir hönnun skíðasvæðisins. Segir í bréfinu að með þessu vilji SFÍ tryggja það að hönnun skíðasvæðisins verði sett í forgang svo hægt sé að hefja uppbyggingu metnaðarfulls skíðasvæðis sem væri bæjarbúum til sóma sem og aðdráttarafl fyrir ferðamenn.

Íþrótta- og tómstundarnefnd fagnar frumkvæði SFÍ og leggur til við bæjarstjórn að þeir fjármunir sem félagið hefur fengið loforð um til uppbyggingar í Tungudal fari í heildarhönnun á svæðinu. Nefndin tekur vel í óskir íþróttafélaganna um uppbyggingarsamninga og leggur til við bæjarstjórn að samið verði við félögin.

Aron Ingi
aron@bb.is

DEILA