September er lýðheilsugöngumánuður Ferðafélags Íslands

Úr Skápadal í Patreksfirði. Mynd: Aron Ingi Guðmundsson.

Í september verður Lýðheilsugöngumánuður Ferðafélags Íslands. Á sunnanverðum Vestfjörðum verður gengið í Vesturbyggð og Tálknafirði alla miðvikudaga í september. Fyrsta gangan verður 5. september þegar gengið verður frá Patreksfirði yfir til Tálknafjarðar. Lagt verður af stað klukkan 17:00 frá Sigtúni. Gangan er um 5 klukkustunda löng og fær flestum. Fólki er ráðlagt að hafa með sér mat í gönguna. Á Lambeyri í Tálknafirði bíður svo bíll eftir þátttakendum og skutlar þeim heim.

Næsta ganga þar á eftir verður þann 12. september. Þá verður gengið upp að Hnjúk og Hnjúkavatni í botni Bíldudals. Lagt verður af stað klukkan 18:00 frá gamla skíðaskálasvæðinu. Þann 19. september verður svokölluð smalaganga. Mæting þann daginn verður á Innri-Múla á Barðaströnd klukkan 17:50. Fólki verður ekið að Grænhól og þaðan verður gengið fyrir Hagaodda og endað á Innri-Múla. Samtímis göngunni verður fé rekið úr Hagafitinni.

Þann 19. september verður svo söguganga um Patreksfjarðarbæ. Lagt verður af stað klukkan 18:0 frá kirkjugarði bæjarins og er gangan um tvær klukkustundir. Síðasta ganga mánaðarins verður svo miðvikudaginn 26. september. Þann daginn verður gengið að Systravörðum í Tálknafirði. Verður lagt af stað við enda Móatúns klukkan 18:00 og mun sú ganga taka 1 til 2 klukkustundir.

Á vefnum lydheilsa.fi.is má upplýsingar um þær göngur sem eru á dagskrá á hverjum stað og eru íbúar hvattir til að kynna sér málið og taka þátt.

Aron Ingi
aron@bb.is

DEILA