Patró Fit á Patreksfirði heldur áfram

Hluti af Patró Fit hópnum afhendir Geir Gestssyni í Bröttuhlíð upphæðina sem safnaðist síðastliðinn vetur. Mynd: Lilja Sigurðardóttir.

Síðastliðinn sunnudag afhenti hópur kvenna á Patreksfirði forsvarsmanni íþróttamiðstöðvarinnar Bröttuhlíðar 700.000 krónur. Þessi upphæð safnaðist í átaki sem fór fram síðastliðið vor. Konurnar tóku sig til síðasta vetur og stofnuðu hópinn Patró Fit og hittust reglulega. Byrjuðu þær að hittast í október síðastliðnum en starfsemin vatt svo upp á sig líkt og sagt var frá í frétt BB í vor. Héldu þær svokallaða Biggest Looser keppni í vetur sem var svo vinsæl að þær héldu framhaldskeppni sem kallaðist Biggest Looser 2. Einnig stofnuðu þær Facebookhóp og héldu úti Snapchat svo áhugasamir gætu skipst á hugmyndum um allt sem viðkemur heilsurækt og heilbrigðum lífsstíl.

Hópurinn ætlar að halda áfram starfsemi í vetur og munu byrja nýtt átak fljótlega og munu þátttökugjöldin renna upp í kaup á áhöldum fyrir Bröttuhlíð líkt og síðasta vetur. Ekki eru sett skilyrði um að hreyfa sig til að vera með en gerð er krafa um greiðslu á skráningargjaldi og skoruðu þær einnig á fyrirtæki á svæðinu til að taka þátt í söfnuninni síðastliðinn vetur. Lokahóf sem haldið var síðasta vor vakti mikla lukku og er gaman að sjá hvað áhuginn er mikill og er þetta framtak svo sannarlega til fyrirmyndar.

Aron Ingi
aron@bb.is

DEILA