Nágrannavarslan er góð á Reykhólum

Breiðafjörður í allri sinni dýrð.

Á Reykhólavefnum segir frá því að björgunarsveitir við Breiðafjörð hefðu verið kallaðar út vegna trillu með vélarbilun á innanverðum Breiðafirði. Atvikið rataði í fréttir en nágrannar trillusjómannsins komu honum til hjálpar áður en björgunarsveitir náðu á staðinn. Svo segir á Reykhólavefnum:

„Þarna var Jóhannes G. Gíslason í Skáleyjum á ferðinni, ásamt farþega. Jóhannes þekkir manna berst til allra staðhátta á Breiðafirði, en vélarbilun eða óvænt óhöpp gera ekki boð á undan sér. Í ofangreindu tilviki fór þó allt vel. Veður var gott og Kristján Ebenesersson bóndi á Stað fékk veður af ferðum nágranna síns og fór undir eins af stað og aðstoðaði Jóhannes til hafnar að Stað.“

„Atvik sem þetta sýnir hveru mikilvægu hlutverki björgunarsveitirnar gegna, þær eru á vakt alla daga ársins. Hins vegar leiðir það af sjálfu sér að tíma tekur að kalla út björgunarsveitarfólk og að komast með tilheyrandi búnað á vettvang, sem allt eins getur verið allfjarri þeim stað þar sem aðstoðar er þörf. Í þessu tilviki var Kristján búinn að leysa vandann áður en björgunarsveitirnar komust á staðinn.“

„Hinu skal þó ekki gleymt að við Breiðafjörð, sem víða annar staðar, er það venja að fylgjast með ferðum ferðalanga á sjó. Slíka vöktun hefur fólkið á Stað og öðrum bæjum ástundað af kostgæfni, sem oftar en ekki hefur komið sér vel. Þær eru ófáar ferðirnar sem Eiríkur Snæbjörnsson á Stað hefur farið síðustu áratugi, sjófarendum við innanverðan Breiðafjörð til aðstoðar, við æði misjafnar aðstæður. Á síðari árum hefur Kristján, tengdasonur Eiríks, tekið þetta hlutverk að sér, þótt engin formleg tilskipan eða ósk liggi þar að baki og þótt aldrei sé greitt fyrir slíka þjónustu.“

„Í dagsins önn vill það ef til vill gleymast hversu mikið og óeigingjarnt starf liggur þarna að baki, auk kostnaðar og frátafa. Einnig minna ofangreind atvik á mikilvægi byggðar og þeirrar vöktunar sem bændur ástunda, veg- og sjófarendum til hjálpar og öryggis við óvæntar aðstæður.“

Sæbjörg
bb@bb.is

DEILA