Munu framleiða 6.000 tonn af laxi í ár

Kristian Matthíasson forstjóri Arnarlax í viðtali við Sharon Olsen hjá Ilaks.no

Forstjóri Arnarlax var í viðtali við norska blaðið Ilaks.no á dögunum. Þar kemur fram að Arnarlax hafi framleitt 10.000 tonn af laxi árið 2017 en í ár liggi fyrir að 6000 tonn verði framleidd. Það er langt undir þeim 22.700 tonnum sem fyrirtækið hefur leyfi til að framleiða.

„Við erum langt frá því að nýta leyfin sem okkur hafa verið gefin til framleiðslu,“ sagði Kristian Matthíasson forstjóri. „Fyrirtækið hefur enn möguleika til að vaxa með tilliti til leyfa og burðarþolsmats. Á þessu ári hafa þessi fjögur fyrirtæki, Arnarlax, Arctic Fish, Ice Fich og Laxar jour.anm. sett út mesta magnið af seyðum til þessa og miðað við það ættu að koma um 30.000 – 40.000 tonn af laxi frá Íslandi á næstu tveimur árum.“

Þetta eru stór skref fyrir fiskeldisfyrirtækin sem þýðir líka miklar áskoranir þar sem vegakerfi eru slæm og flytja þarf vöruna um langa leið. „Við keyrum fiskinn til Reykjavíkur sem getur verið mjög erfitt á veturna,“ segir Kristian. „En frá og með nóvember munum við geta sent beint frá Bíldudal þar sem Samskip hefur siglingar þaðan í þeim mánuði. Þá fer fiskurinn frá Bíldudal, til Reykjavíkur og svo Rotterdam sem er mikill munur, þar sem mikil áskorun felst í því hve fyrirtækið er langt frá mörkuðum sínum.“

Kristian segir einnig í viðtalinu að stærsti markaður þeirra sé í Bandaríkjunum þó alltaf fari stór hluti til Evrópu. Hann segir einnig að það ætti að liggja beint við að Bandaríkin væru fyrirtaks markaður fyrir Ísland en flutningur þangað hamli viðskiptum. Bæði sé skipulag flugs frá Íslandi ekki nægilega gott, plássið lítið og verðið dýrt. „Við höfum möguleika á að flytja fiskinn með flugi frá Evrópu til Bandaríkjanna en það er ekki það sem við myndum helst kjósa.

Kristian segir í samtali við Ilaks að ekki sé unnt að segja að svo stöddu hversu mikið af fiski verður flutt með Samskip frá Bíldudal frá og með nóvember. „En með skipaflutningum fáum við möguleika á að setja stóran hluta framleiðslunnar um borð á mánudögum, þriðjudögum og miðvikudögum. En hversu mikið það verður nákvæmlega er ekki ljóst að svo stöddu.

Kristian var líka spurður út í þá 200.000 laxa sem drápust í Laugardal á síðasta ári. Hann segir vitaskuld hefði verið best að koma í veg fyrir slys af þessu tagi, en slysin geri ekki boð á undan sér. „Það er búið að gefa út skotleyfi á Arnarlax í augnablikinu. Það eru margir blaðamenn sem vinna gagngert að því að skapa neikvæða ímynd af okkur, án þess að við getum svarað fyrir okkur,“ segir Kristian enn fremur. „Þetta er erfitt umhverfi sem við störfum í og margir hafa gert upp skoðun sína á fiskeldi og henni verður ekki breytt. En okkar markmið er að skapa stað þar sem þeir sem áhuga hafa geta nálgast þær upplýsingar sem óskað er eftir.

Sæbjörg
bb@bb.is

DEILA