Jón kynnir bókina: „Á mörkum mennskunnar“

Jón Jónsson

Út er komin bókin /Á mörkum mennskunnar. Viðhorf til förufólks í sögnum
og samfélagi/ eftir Jón Jónsson þjóðfræðing. Af því tilefni verður
haldin kynning á bókinni þar sem Jón flytur erindi um efnið þriðjudaginn
11. september kl. 15:00 í kennslustofunni G-102 sem er í húsinu Gimli
sem er ein af byggingum Háskóla Íslands.

Í kynningu á bókinni sem kemur út í ritröðinni /Sýnisbók íslenskrar
alþýðumenningar /segir: Sögur af sérkennilegu fólki hafa lengi heillað
Íslendinga. Þar á meðal eru fjölbreyttar sagnir um fátækt förufólk sem
flakkaði um landið fyrr á öldum. Hér er fjallað um þessar frásagnir og
stöðu flakkara í samfélaginu fram á 20. öldina. Þeir voru umtalaður
hópur, rækilega jaðarsettur og oft líkari þjóðtrúarverum en manneskjum í
sögunum. Hörmulegt atlæti Stuttu-Siggu í æsku, skringileg skemmtiatriði
Halldórs Hómers, rifin klæði Jóhanns bera og uppreisnarseggurinn Sölvi
Helgason koma öll við sögu.

Jón Jónsson er þjóðfræðingur sem býr og starfar norður á Ströndum, Jón
hefur unnið að margvíslegu safnastarfi og nýsköpunar- og
miðlunarverkefnum á sviði þjóðfræði og starfar nú hjá Rannsóknasetri
Háskóla Íslands á Ströndum – Þjóðfræðistofu sem hefur aðsetur á
Hólmavík. Hann var áður menningarfulltrúi Vestfjarða og rak fyrirtækið
Sögusmiðjuna.

Sæbjörg

bb@bb.is

DEILA