Hvað fæst fyrir 40 milljónir króna?

Arna Lára Jónsdóttir.

Arna Lára Jónsdóttir varaþingmaður Samfylkingarinnar og oddviti Í-listans í Ísafjarðarbæ situr nú inn á þingi þessa vikuna og í gær tók hún þátt í störfum þingsins og ræddi um fjármögnun Lýðháskólans á Flateyri, í ljósi þess að ekki gert ráð fyrir fjármögnun skólans í fjárlögum. Einnig kallaði hún eftir frumvarpi um lýðháskóla á Íslandi til að styðja við lýðháskóla á Flateyri og Lunga á Seyðisfirði.

Ræða Örnu Láru er svohljóðandi:
„Nú á laugardaginn verður Lýðháskólinn á Flateyri settur í fyrsta skipti. 30 nemendur eru skráðir til náms og skólinn fullsetinn þetta fyrsta skólaár. Nemendum fylgja starfsfólk, makar og börn, alls á fimmta tug nýrra íbúa á Flateyri þar sem íbúafjöldi vex um 20-30%. Munar um minna.

Lýðháskólinn á Flateyri er nánast fullfjármagnaður þetta skólaár með frjálsum framlögum einstaklinga, stofnana og fyrirtækja, en það þarf 40.mkr á ári til að reka skólann. Mikil óvissa er með fjármögnun fyrir næsta skólaár og ef ekki kemur til fjármögnun frá ríkinu er líklegt að Lýðháskólinn verði bara rekinn í vetur. Fjárlögin voru lögð fram í síðustu viku og EKKI er gert ráð fyrir fjármögnun lýðháskólans í þeim. Ekki króna! Ég vona að í meðförum þingsins verði breyting á og að fjármögnun Lýðháskólans verði tryggð.

Þetta er svo ótrúlega ódýr og snilldar byggðaaðgerð (þó svo markmið hans séu ekki endilega byggðasjónarmiðs eðlis). Einnig er starfandi Lýðháskólinn Lunga á Seyðisfirði sem þarf að tryggja fjármögnun líka.

Svo við setjum hlutina í samhengi þá kostar jafnmikið að reka Lýðháskólann á Flateyri í heilt ár og framúrkeyrsla kostnaðar vegna hátíðarfundar Alþingis var í sumar. 40. mkr.
Þetta verkefni er ekki bara mikilvægt fyrir nemendur skólans sem munu öðlast mikilvæga færni heldur er þetta risa stórt samfélagsverkefni. Við erum að tala um að íbúum á Flateyri mun fjölga um 20-30%. Fjölgar um ungt fólk sem vantar inn í samfélagið. Það fjölgar í leikskólanum, það fjölgar í grunnskólanum, og með fleiri íbúum renna styrkari stoðir undir þá þjónustu sem er þegar á staðnum sem hefur átt undir högg að sækja eins og matvöruverslun.

Allt þetta getum við fengið fyrir 40.mkr. Það er ekki mikið.

Þetta verkefni er að fara breyta Flateyri og liður í því að finna nýja undirstöðu sem er ekki er vanþörf á, eftir að stoðunum var kippt undan byggðinni þegar 3000 tonna kvótinn var seldur árið 2007. Svona verkefni eiga til lengri tíma litið eftir að hafa miklu meiri áhrif á samfélagið en t.d. byggðakvóti (sem til þess er hugsaður að koma til móts við byggðir sem hafa lent í svona hremmingum) sem framlengir í raun status quo og er ekki að fara breyta samfélaginu til lengri tíma. Fyrir 40.mkr til að leigja kvóta færðu ca. 236 tonn í stóra kerfinu og 364 tonn í litla kerfinu. Þetta er fyrir utan veiðigjöld.

Að lokum vil ég kalla eftir frumvarpi um lýðháskóla sem ég vona að hafi ekki dagað upp í Menntamálaráðuneytinu. Það er nauðsynlegt að setja þessum skólum lagaumgjörð en fram að því frumvarpi þá eigum við að styðja Lýðháskólann á Flateyri og Lunga á Seyðisfirði. Þessir skólar hafa óskað eftir opinberri fjármögnun pr. nemanda líkt og framhaldsskólar njóta frá þar til lagaramminn liggur fyrir.“

Sæbjörg

bb@bb.is

DEILA