Hjartað Vestfirðir

Guðrún Anna Finnbogadóttir.

Blóðið streymir um æðarnar og fyllir allt af lífi, súrefnið flyst út í ystu frumur og allt er að gerast, frjóar hugmyndir flæða og verða að veruleika. Vestfirðir eru kyngimagnað landssvæði og við sem búum þar njótum þess að upplifa náttúruna á hverjum degi, svo koma dagar þar sem við berum óttablandna virðingu fyrir náttúruöflunum þegar við upplifum kraftinn sem í þeim búa.

Það eru forréttindi að fá að upplifa hvern dag í faðmi fjallanna sem okkur þykir vænt um og finna kraftinn sem býr í umhverfi okkar og ekki síður að finna kraftinn sem býr í fólkinu á Vestfjörðum.

Þó er einn hængur á, Vestfjörðum hefur verið skipt upp í þrjú hjartahólf sem ekki geta starfað saman því það vantar „hjartaæðar“. Í nútímasamfélagi eru hjartaæðarnar góðir vegir, rafmagn og netsamgöngur. Við erum að glíma við stíflaðar æðar hér og þar sem við verðum að laga, hér dugir ekkert nema aðgerð.

Aðskilnaðarstefna hefur verið stunduð, norðanverðir Vestfirðir, sunnanverðir Vestfirðir og Strandir fjarlægst og bilið eykst og eykst án þess að mikið sé að gert. Þegar tæknin í samgöngum fór að breyðast út var mikið metnaðarmál að hér væru strandsiglingar, flug milli fjarða, vegir lagðir og ekki síður að allir fengju rafmagnstengingu og sæu sjónvarp, hinsvegar sofnuðum við á verðinum.

Á Vestfjörðum líkt og í öðrum landsfjórðungum voru flugvellir í hverjum firði lagðir af, eini munurinn er að í öðrum landshlutum voru þeir lagðir af vegna tilkomu nútímalegra vega eins og þeir voru á hverjum tíma. Á Vestfjörðum gleymdist þetta annars stóra atriði að það kæmu góðir vegir í staðin.

Undanfarna áratugi hafa Íslendingar verið duglegir að sækja sér menntun á öllum sviðum bæði hérlendis og erlendis. Þetta fólk er gullnáman okkar, fjölbreytt þekking, ótrúlegur bakgrunnur sem nýtist vel í gamalgrónum jarðvegi. Ég sé fyrir mér að Vestfirðir verði „mekka“ frumkvöðlastarfs þar sem býr nútímafólk sem getur blandað saman öllu því nýjasta í tækni og vísindum og öllu því besta sem náttúran og svæðið hefur upp á að bjóða. Það frumkvöðlastarf sem hefur drifið Vestfirði áfram á síðustu öld með blöndu af nýjum og ferskum hugmyndum þar sem frumbyggjarnir og frumkvöðlarnir nýta alla sína einstöku hæfni til að skapa kraumandi samfélag.

Það er mikilvægt að hafa í huga að ef allar hjartaæðarnar væru í lagi, skapast tækifæri til nútímalegra starfa á Vestfjörðum á sviði hugvits, ferðamennsku og nýjustu tækni. Atvinnugreinar á þessum sviðum henta einnig vel í óspilltri náttúru Vestfjarða því lítið jarðrask verður þegar hugvit er nýtt. Hugvitið skapar okkur tekjur og tækifæri ef við erum í fullkomnum tengslum við umheiminn allan.

Strandir voru í alfaraleið um aldamótin 1900 þegar einu samgöngurnar voru sjóleiðina og fólkið þar var nútímalegt og fékk smjörþefinn af heiminum við komu erlendra skipa. Upp til sveita var minna um nýjungar og fólkið fluttist í sjávarbyggðirnar til að upplifa þennan nýja heim sem var að skapast á Íslandi. Siglingar milli landshluta sem voru „hjartaæðarnar“ í íslensku samfélagi eru það ekki lengur en æðarnar sem áttu að taka við eru sumstaðar arfa slakar.

Eftir langvarandi bútasaum stjórnvalda við uppbyggingu innviða á Vestfjörðum er greinilegur skortur á heildstæðum lausnum í samgöngu, rafmagns og netmálum Vestfirðinga. Við erum óskaplega þakklát og stolt af mörgum af fallegu bútunum sem hafa verið gerðir, en aðrir bútar sóma sér ekki í fallega Vestfjarðateppinu okkar. Innbyrðis hafa Vestfirðingar farið að kíta um forgangsröðun og hvort þessi bútur hefði átt að koma fyrr eða seinna, en nú er mál að linni.

Það er sjálfsögð krafa að fólks sem býr í aðeins 100 km fjarlægð frá hvort öðru að það geti ferðast til nágranna sinna árið um kring og það verður seint talið umhverfisvænt að ferðast 600 km til að heimsækja nágranna sína sem búa í 100 km fjarlægð.

Að það sé flottur vegur allan hringinn á Vestfjörðum er sjálfsagt mál, að það sé stöðug framboð á umhverfisvænni orku og að allir hafi aðgang að góðu neti til að geta byggt upp nútímalegt atvinnulíf um alla Vestfirði er líka sjálfsagt mál. Til að þetta geti orðið verða Vestfirðingar að berjast sem einn maður fyrir því að það verði umbætur í öllum fjórðungnum. Það hefur verið svo naumlega skammtað til þessara málaflokka á Vestfjörðum að við verðum að fagna öllum smáum framfaraskrefum hér og þar. Við skulum gleðjast yfir öllum litlu sigrunum í fjórðungnum eins og hann væri okkar eigin því hvert lítið skref færir okkur nær stóru skrefunum sem þarf að taka.

Framtíð Vestfjarða er að verða nútímalegt svæði í fullkomnum tengslum við náttúruna það skiptir engu máli lengur hvar fólk velur sér búsetu ef innviðin eru í lagi. Leggjumst á eitt í baráttunni fyrir stóru málunum, við munum öll njóta góðs af því þegar eðlilegt blóðflæði næst og súrefnið pumpast jafnt um alla Vestfirði og Vestfirsk hjörtu slá í takt.

Guðrún Anna Finnbogadóttir

Höfundur er sjávarútvegsfræðingur með master í umhverfisstjórnun

DEILA