Hafna því að Pollurinn verði markaðssettur sem áfangastaður

Tveir Pollvinir sem unnu rösklega að endurbótum fyrr á þessu ári, frá vinstri: Jón Örn Pálsson og Jónas Snæbjörnsson. Mynd: Pollvinafélagið.

Á sveitarstjórnarfundi á Tálknafirði 13. september var lagt fram erindi frá Markaðsstofu Vestfjarða þess efnis að Pollurinn fyrir utan Tálknafjörð verði hluti af áætlun um áfangastaði ferðafólks Suðursvæði Vestfjarða. Þar segir „Alla tíð hefur það verið stefna sveitarfélagsins að halda Pollinum utan við auglýsingar og kynningarefni þar sem íbúar líta á Pollinn sem sína heilsulind og hafa lagt fram mikla sjálfboðavinnu við viðhald og endurbætur þar í gegnum tíðina.“

Þá segir enn fremur að ekkert samtal hafi átt sér stað um málið við íbúa Tálknafjarðar, landeigendur eða sveitarstjórn og þess vegna væri þessari tillögu hafnað samhljóða. Sveitarstjórn leggur það til við Markaðsstofu Vestfjarða að sundlaug Tálknafjarðar og tjaldsvæðið komi í staðinn sem áfangastaður. Sveitarstjórnin leggur líka til að Markaðsstofa hafi víðtækara samráð varðandi ákvarðanir af þessu tagi þar sem verið sé að skuldbinda sveitarfélög og landeigendur til að bera ábyrgð á verkefnum og leggja fram fé án þess að nokkuð samtal hafi átt sér stað á formlegum nótum.

Sæbjörg
bb@bb.is

DEILA