Hættur með verslunina í Norðurfirði

Ólafur Valsson og Sif Konráðsdóttir. Mynd: Jón G. Guðjónsson.

Ólafur Valsson verslunarmaður hefur sagt upp verslunarhúsnæði og íbúð númer þrjú í Kaupfélagshúsinu sem er svo kallað hjá sveitarfélagi Árneshrepps. Frá þessu segir Jón Guðbjörn Guðjónsson á Litla Hjalla. Meðfylgjandi færslu hans er bréf frá oddvita sveitarfélagsins sem var sent á öll heimili í Árneshreppi.

Norðurfirði 21.september 2018.

Til heimilisfólks í Árneshreppi.

Á fundi sínum í kvöld ákvað hreppsnefnd að senda öllum íbúum Árneshrepps bréf varðandi stöðu mála nú þegar Ólafur Valsson hefur sagt upp leigunni á verslunarhúsnæðinu og íbúð nr. 3 í kaupfélagshúsinu og er að hætta rekstri verslunarinnar.

Nú frekar en nokkru sinni fyrr verðum við að leita lausna og margar tillögur hafa þegar verið nefndar. Þar má til dæmis nefna að samið yrði við einhverjar verslanir í Reykjavík um úttektir sem senda mætti með flugi íbúum að kostnaðarlausu, þ.e.a.s. verslanir bjóða ókeypis flutning ef keypt er fyrir einhverja ákveðna upphæð. Það eru margar verslanir sem þegar bjóða þessa þjónustu, en í versta falli þyrfti sveitarfélagið að semja við Flugfélagið Erni um lægri flutningsgjöld. Einnig verður haft samband við Vegagerðina varðandi greiðslu á hluta flutningskostnaðar.

Gott væri að fá fregnir af því hvort einhver ykkar hafa spurnir af svona og ennfremur ef þið sjáið einhverjar lausnir fyrir reksturinn hvort sem er til skemmri en lengri tíma.

Gott væri líka að fá nöfn á fyrirtækjum ef þið þekkið til einhverra sem stunda svona þjónustu. Við erum þegar komin með nöfn á nokkrum fyrirtækjum s.s. Boxið, Hagkaup heim, Samkaup, Nettó og N1 og er þegar farið að skoða þau mál. Fleiri gætu verið til og því eru allar upplýsingar vel þegnar.

Það væri fínt ef þið hafið samband við okkur, annað hvort með tölvupósti, símtali eða öðrum hætti. Þetta fer fyrst til ykkar í tölvupósti og kemur svo heim til allra á næsta póstdegi.

Með baráttukveðjum,

Hreppsnefnd Árneshrepps.

Með færslunni á Litla Hjalla er einnig birt bréf sem Ólafur Valsson sendi sumum íbúum Árneshrepps, þar sem ástæður þess að hann hættir verslunarrekstri eru útskýrðar.

Bréf Ólafs Valssonar.

Sæbjörg

bb@bb.is

DEILA