Gefa lyfjafóður gegn laxalús

Sjókvíar í Patreksfirði. Mynd: Aron Ingi Guðmundsson.

Matvælastofnun hefur heimilað lyfjameðhöndlun gegn laxalús í sjókvíaeldisstöð í Arnarfirði með lyfjafóðrinu Slice vet. Fisksjúkdómanefnd veitti umsókn um lyfjanotkunina jákvæða umsögn eftir ítarlega upplýsingaöflun.

Matvælastofnun fór í eftirlit þegar umsóknin barst og við lúsatalningu sáust greinileg merki um nýsmit. Sama stöð var meðhöndluð með baðlyfi í júní og að þeirri meðhöndlun lokinni voru settar upp forvarnir gegn lús í formi lúsadúka sem settir eru utan um kvíarnar. Dúkarnir hafa það hlutverk að sía smitandi lúsalirfur frá kvínni og eiga þannig að draga úr smitálagi á fiskinn.

Ljóst er að þær varnir hafa ekki virkað að fullu og því var það mat sérfræðinga stofnunarinnar og fisksjúkdómanefndar að rétt væri að meðhöndla þessa stöð. Markmiðið er að draga úr smitálagi og lúsamagni fyrir haustið og veturinn. Þannig er vonast til þess að lítið lúsamagn við upphaf vetrar hafi jákvæð áhrif á stöðu mála næsta vor.

Lyfið er gefið með fóðri í vikutíma og hefur því ekki neikvæð áhrif á velferð fisksins.

Sæbjörg

bb@bb.is

DEILA