Gangagreftri lokið Arnarfjarðarmegin!

Þreyttir en ánægðir gangamenn eftir síðustu sprenginguna í Arnarfirði.

Á laugardaginn um kl. 17 sprengdi verktakinn síðustu færuna í göngunum Arnarfjarðarmegin og var slegið til mikillar matarveislu um kvöldið. Starfsmenn verktaka voru að vonum glaðir og ánægðir með þennan flotta áfanga. Enda þótt þeir séu ekki alveg komnir að hábungu þá var ákveðið að lát staðar numið þar sem rafmagnskapallinn var kominn í botn og því fyrirliggjandi að eyða a.m.k. hálfri vakt til að færa spenninn til þess eins að sprengja nokkrar færur og því ákveðið að láta gott heita.

Í vikunni lengdust göngin um 77,7 m og er endastafn Arnarfjarðarmegin í stöð 6.790,6. Lengd ganga þá orðin 3.657,6 m sem er um 69,0% af heildarlengd og eru 27,5 m eftir að hábungu. Alls voru 740 færur sprengdar í göngunum Arnarfjarðarmegin auk sprengivinnu í hliðarrýmum útskota. Meðalfærulengd frá byrjun gangagraftrar er því um 4,94 m sem verður að teljast mjög gott.

Nú á næstu vikum taka við flutningar yfir í Dýrafjörðin en auk þess mun verktaki vinna að lokastyrkingum í göngum Arnarfjarðarmegin. Mun hann einbeita sér að hægri vegg ganga til að unnt sé að byrja á lagnavinnu í göngum nú í haust. Áætlað er að fyrsta sprenging í Dýrafirði verði í annari viku í október.

Endastafn í Arnarfirði, st. 6.7906.
Vegagerð í Dýrafirði.
Vegagerð í Dýrafirði vel á veg komin.
Unnið við uppsetningu á aðstöðu í Dýrafirði.
Unnið við fláa í Arnarfirði.
Stafn í Dýrafirði nánast klár fyrir fyrstu sprengingu.

Merkur áfangi að baki og verkið í heild sinni gengið vel fyrir sig og vonum við að svo verði allt til loka.

Auk vinnu í göngum hefur verktaki unnið við vegagerð í báðum fjörðum, uppsetningu aðstöðu í Dýrafirði og brúargerð í Arnarfirði. Í Arnarfirði er fyllingarvinna langt á veg kominn og verktaki undanfarið aðallega unnið við fláafrágang og frágangsvinnu í skeringum. Í Dýrafirði gengur vegagerð einnig vel og farið að móta fyrir veglínunni á löngum köflum. Þá er uppsláttur fyrir syðri stöpul Mjólkárbrúar langt komin og verður hann steyptur á næstu dögum.

Sæbjörg

bb@bb.is

DEILA