Fyrirlestur um Guðrúnu frá Lundi í Gamla Sjúkrahúsinu á laugardaginn

Guðrún frá Lundi. Mynd: Kristjana Guðmundsdóttir.

Laugardaginn 29. september kl. 14 verður Marín Guðrún Hrafnsdóttir með erindi um skáldkonuna Guðrúnu frá Lundi. Fyrir 72 árum kom fyrsta bindi skáldsögunnar Dalalífs út. Alls urðu bindin fimm og var þar komin lengsta skáldsaga sem komið hafði út á Íslandi, rúmar 2000 síður. Þessi vinsæla sveitasaga markaði upphaf ritferils skáldkonunnar Guðrúnar Árnadóttur eða Guðrúnar frá Lundi.

Guðrún frá Lundi nýtur enn fádæma vinsælda og í erindi sínu um ævi og störf skáldkonunnar fer Marín Guðrún Hrafnsdóttir bókmenntafræðingur yfir hvað skýrir þessar miklu og endurteknu vinsældir öðru fremur og hvað það er í verkum hennar sem höfðar til lesenda í dag. Guðrún var langamma Marínar og þekkir hún því einnig vel persónusögu Guðrúnar og togstreituna á milli þess að búa við neikvæðar viðtökur og þess að vera metsöluhöfundur í nærri tvo áratugi. Umfjöllunarefni skáldsagna Guðrúnar verða skoðuð og rýnt í strauma og stefnur sem ríktu á 6. og 7. áratug síðustu aldar.

Heitt á könnunni og allir velkomnir.

Sæbjörg

bb@bb.is

DEILA