Efling samvinnu og samskipta meðal nemenda með flóknar þarfir

Notkun legokubba við kennslu og samskipti er viðfangsefni rannsóknar Laufeyjar Eyþórsdóttur.

Gestur í Vísindaporti vikunnar er Laufey Eyþórsdóttir og mun hún í erindi sínu fjalla um niðurstöður rannsóknar sem hún vann fyrir lokaverkefni sitt til MA-gráðu í uppeldis- og menntunarfræðum við Háskóla Íslands sem ber titilinn „Ég gat eignast vini“ : efling samvinnu og samskipta meðal nemenda með flóknar þarfir. Rannsóknin var unnin við sérskóla í Englandi skólaárið 2015-2016. Markmiðið var að skoða það ferli sem hópur nemenda með flóknar þarfir og starfsfólk gengu í gegnum á meðan Lego inngripi Dr. LeGoff (o.fl.) var í kerfisbundinni notkun samhliða annarri Lego© vinnu. Nánari upplýsingar má nálgast í úrdrætti hér að neðan.

Vísindaportið fer fram í kaffistofu Háskólaseturs kl. 12:10-13. Allir velkomnir.

Laufey Eyþórsdóttir er búsett á Ísafirði, þar sem hún vinnur sem sérkennari og einhverfuráðgjafi. Eftir fjölbreyttan starfsferil byrjaði hún að kenna haustið 2001, fyrst á Ísafirði og síðar í Englandi, þar sem hún starfaði við sérskóla fyrir börn með flóknar þarfir. Fyrir ári síðan kom hún heim, lauk MA náminu og hefur starfað við að innleiða Lego sem kennslutæki við Grunnskólann á Ísafirði. Einnig hefur hún hafið störf sem einhverfuráðgjafi, samhliða því að fara með ferðafólk um Ísafjörð og nágrenni á sumrin.

Úrdráttur

Rannsóknin var unnin við sérskóla í Englandi skólaárið 2015-2016. Markmiðið var að skoða það ferli sem hópur nemenda með flóknar þarfir og starfsfólk gengu í gegnum á meðan Lego inngrip Dr. LeGoff og félaga (LeGoff, de la Cuesta, Krauss, & Baron-Cohen, 2014) var í kerfisbundinni notkun samhliða annarri Lego© vinnu. Unnið var út frá rannsóknum á notkun á Lego sem hafa sýnt fram á aukna samskipta- og félagsfærni meðal barna á einhverfurófi (LeGoff et al, 2014). Fylgst var með samskipta- og samvinnuþróun hópsins, ásamt faglegri ígrundun tveggja starfsmanna. Rannsóknin var starfendarannsókn og notast var við blandað rannsóknarsnið með eigindlegri megináherslu. Eigindlegum gögnum var safnað með viðtölum, skráningum í rannsóknardagbók út frá vinnu á vettvangi og ljósmyndum. Eigindlegu gögnin voru greind með þemagreiningu og narratívu. Myndrit voru unnin upp úr megindlegum gögnum út frá skráningum á félagshæfnieinkunnum, hegðunarpunktum og mætingarskráningum, sem voru túlkuð og sett í samhengi við eigindlegu gögnin. Félagslegar mótunarkenningar (Dóra S. Bjarnason, 2003) voru notaðar við túlkun gagna ásamt kenningum um félagslegan auð (Coleman, 1988). Niðurstöður sýndu fram á rólegri hegðun hjá hópnum á inngripstímabilinu og næstum tvöföld framför varð í félagsfærni hans. Mikilvægustu framfarirnar voru aukin trú á eigin getu og meiri sjálfsstjórn, betri almenn líðan og uppbyggilegri samskipti. Viðhorf hópsins til sjálfs sín breyttist úr lærðu hjálparleysi í aukna trú á eigin getu og framtíð þar sem traust reyndist vera lykilatriði. Niðurstöður inngripsins eru í takt við niðurstöður Dr. LeGoff og félaga um bætta samskipta- og samvinnuhæfni. Þetta gefur til kynna að breiðari hluti nemenda gæti grætt á því að Lego sé notað sem nálgun til kennslu til að ýta undir aukna samvinnu og samskipti innan venjulegs námsumhverfis. Vinnan með hópinn krafðist sveigjanlegra kennsluhátta. Setja má spurningamerki við hvort þessi aðferð sé í raun frekar kennsluaðferð, sem nota má í almennri kennslu, en sérúrræði. Frekari rannsóknir innan almennra skóla, þar sem Lego er nýtt markvisst sem hluti af bekkjarstarfi til að veita nemendum á jaðarnum leið inn í hópinn, gætu varpað frekara ljósi á félagslegt réttlæti og jaðarsetningu innan skólakerfisins. Það virtist ekki vera unga fólkið sem þurfti að laga, heldur hvernig námstækifæri kerfið veitir þeim aðgang að.

Sæbjörg

bb@bb.is

DEILA