Draumur barnakennarans um síldarumsvif

Gísli Sigurðsson.

Um daginn rak strandveiðibát upp í fjörur í Þaralátursfirði. Upp úr því hófust bréfaskriftir á milli blaðamanns BB og tveggja landeigenda í Þaralátursfirði, bræðranna Baldurs og Gísla Sigurðssonar. Gísli Sigurðsson er fyrrum kennari blaðamanns í þjóðfræði í Háskóla Íslands og hjá honum var aldrei leiðinlegt að fræðast. Gísli var svo indæll að senda blaðamanni þessa frásögn af sögu ættar þeirra úr Þaralátursfirði sem hér er birt með góðfúslegu leyfi hans:

Draumur barnakennarans um síldarumsvif

Þaralátursfjörður er á austanverðum Hornströndum á milli Furufjarðar að norðan og Reykjafjarðar að sunnan. Landamerki að norðanverðu eru í klettinum Ölkönnu (sem áður hét Kanna) undir Furufjarðarnúp, sem skiptir reka milli téðra jarða, úr nefndum kletti beina sjónhending upp á brún og svo eftir hæsta fjallhrygg og vestur á miðja Skorarheiði eftir því sem segir í landamerkjaskrá no. 67, sem var þinglesin hjá Skúla Thoroddsen 13. 9. 1887 og varðveitt er hjá sýslumannsembættinu á Ísafirði. Skrána vottar þó enginn ábúandi í Þaralátursfirði. Milli Reykjarfjarðar og Þaralátursfjarðar skilur varða sem stendur í miðri Kerlingarvík og svo sjónhending upp í svokallaðar Kerlingardyr í Fjallsbrúninni, sem segir í landamerkjaskrá no. 226, sem var þinglesin hjá Lárusi Bjarnasyni 6.9. 1892 og varðveitt er hjá sýslumannsembættinu á Ísafirði. Þá skrá undirskrifar meðal annarra Jens Sigfússon í Þaralátursfirði.

Afi okkar og amma, Baldur Sveinsson (um skeið skólastjóri á Ísafirði) og Maren Pétursdóttur festu kaup á jörðinni Þaralátursfirði árið 1916 og hugði á mikil síldarumsvif — eins og Baldur hafði kynnst í sumarvinnu á Djúpuvík. Hjá sýslumanninum á Ísafirði var eftirfarandi bréfi þinglýst 20. júlí 1917:

Undirritaður Friðrik Bjarnason, hreppstjóri á Mýrum, sel og afsala með þessu bréfi eignarjörð mína Þaralátursfjörð í Grunnavíkurhreppi, 0,7 hundraða nýtt mat, með þeim réttindum sem henni fylgja og fylgt hafa, til skólastjóra Baldurs Sveinssonar á Ísafirði, honum til fullrar eignar og umráða. Og með því að hann hefir greitt mér andvirði téðrar jarðar, Þaralátursfjarðar, lýsi ég hann eiganda jarðarinnar frá þessum degi og afsala hana mér og mínum erfingjum, fyrir umsamið kaupverð, kr. 2050.oo- tvö þúsund og fimmtíu krónur.

Vottar: Ísafirði, 8. ágúst 1916
Magnús Torfason Fr. Bjarnason
Jón Arinbjörnsson

Eins og kunnugt er, meðal annars af frásögn Vilmundar Jónssonar landlæknis, stundaði Baldur aldrei neinn áþreifanlegan búskap í Þaralátursfirði en lét sig dreyma þeim mun meira um stórútgerð og síldarstassjónir. Vilmundur segir frá þessu í tengslum við ferð Baldurs og Haralds Guðmundssonar í Þaralátursfjörð, skömmu eftir að Baldur keypti fjörðinn – eins og lesa má um í greinasafni hans. Í skjölum Baldurs og Marenar má hins vegar finna ýmislegt um sögu fjarðarins og snýst hið elsta um landamerki:

Ár 1878. Fimmtudaginn 2. júlí vorum við undirskrifaðir samankomnir, samkvæmt skipun sýslumanns H. Bjarnarsonar, Ísafirði til að álíta hvar landamerki mundu vera milli jarðanna Þaralátursfjarðar og Reykjarfjarðar á Ströndum, samkvæmt sætt að Æðey dagsettri 8. janúar 1858 og eru þau þar sögð beint úr Kellingarvík í Kellingardyr, eða skarð það er á að vera uppaf víkinni í fjallsbrún, og álítum við samkvæmt fyrrgreindri sætt og skilríkjum er við höfðum, að vafalaust væri að Kellingardyr væru skarð það sem er upp af miðri Kellingarvík, og að þar séu hin umtöluðu landamerki og hlóðum við vörðu á steini niðurundan skarði því í fjallsbrúninni uppaf Kellingarvík miðri og gjörðu hluteigendur sig ánægða með þessi landamerki og var til staðar settur fyrir Mýrakirkju Arnór Hannesson Höfðaströnd.

Staddir í Kellingarvík á Ströndum
Gjörðarmenn:
Vagn Ebbenesersson Rósinkar Árnason
Jens Sigfússon Arnór Hannesson
Bæring Vagnsson samþykkir
Þorleifur Einarsson

Hinn 14. nóvember 1916 hefur Baldur Sveinsson sent hreppsnefnd Grunnavíkurhrepps bréf þar sem hann tilkynnir að hann muni taka eignarjörð sína Þaralátursfjörð til ábúðar frá fardögum 1917. Tveimur dögum síðar var skrifað annað bréf um hafnaraðstöðu í firðinum:

Ísafjörður 16. nóvember 1916
Skólastjóri Baldur Sveinsson Ísafirði
Samkvæmt því er ég sagði yður í haust um Þaralátursfjörð hefi ég teiknað upp hjá mér að yst í túnjaðrinum 4 faðma frá fjöruborði muni fást 12-15 feta dýpi — í Viðarskálavík hefi ég talið gott upplagningarpláss ef gerður yrði garður út í skerið og nægilegt vatn væri þar að fá sem ekkert var reyndar þá en lækjarfarveg sá ég þar. Viðvíkjandi þessu hefi ég ekkert við að bæta en legg hér innaní nöfn er við Eiríkur Einarsson tókum upp og álítum að fúsir yrðu til að gefa meðmæli um góða höfn þarna og ósk um uppmæling.
Þér ættuð að vinda bráðan but að þessu meðan hægt er að ná í þessa menn. Eiríkur fer burt með Íslandi. Sjálfir getið þér útbúið þettað og kallað okkur svo saman einhvers staðar,
yðar með vinsemd
Brynjólfsson

Í blöðum Baldurs er síðan bréf dagsett 18. nóvember 1916 með yfirlýsingu um að athuga skuli með hafnaraðstöðu í Þaralátursfirði því að þar sé eina höfnin á stóru svæði en nokkuð hættuleg því að ekki hafi verið mælt fyrir skerjum í innsiglingunni sem er vandrötuð og hættuleg ókunnugum. Úti fyrir segir að séu hin bestu síldarmið og þorskveiði mikil, einkum síðari hluta sumars og því sé ófært að menn skuli fara á mis við góðan afla vegna hafnleysis. Undir þetta skrifa sjö skipstjórar: Jón Brynjólfsson, Benedikt Jónsson, Eiríkur Einarsson, Magnús Örnólfsson, Guðmundur Þ. Guðmundsson, Halldór Sigurðsson og Jón Pálsson.

Lítið varð úr þessum framkvæmdum og er ekki ósennilegt að það hafi dregið nokkuð þrótt úr þeim að þau Baldur og Maren misstu tvær ungar dætur sínar á árunum 1917 og 1918. Nokkrum árum síðar hefur Guðjón Kristjánsson í Skjaldar-Bjarnarvík fengið augastað á Þaralátursfirði til búsetu og fær leyfi hreppsnefndar Árneshrepps til að flytjast þangað árið 1923:

Finnbogastöðum 14. apríl 1923
Með bréfi dags. 17. f.m. óskar þú þess að hreppsnefndin gefi þér leyfi til að flytja á jörðina Þaralátursfjörð í Grunnavíkurhreppi. Enda þó við teljum töluverða annmarka á því að þú flytjir á þetta eyðikot höfum við leitast fyrir um leyfi hjá jarðareigandanum Baldri Sveinssyni Reykjavík og hefur hann leyft jörðina til ábúðar handa þér til 5 ára, án eftirgjalds. Rekavið máttu brúka til húsagerða og eldsneytis en ekki til sölu. En umsjón sem leiguliði hefur þú á rekanum. Jarðareigandi áskilur sér rétt til að hafa síldarútgerð og nota landið eftir þörfum til þess úthalds.

Er nú kyrrt um hríð en mál Þaralátursfjarðar koma aftur til umræðu eftir að Baldur lést fyrir aldur fram árið 1932, þá orðinn blaðamaður í Reykjavík. Í árslok 1936 er Guðjón, níu barna faðir, að bregða búi en hefur fengið einn sona sinna, Guðmund, til að byggja jörðina. Hann fær því Jón Auðun Jónsson á Ísafirði til að hafa milligöngu um að gera kauptilboð í Þaralátursfjörð upp á kr. 750. Jón hvetur ekkjuna Marenu til að selja enda geti hún ekki vonast eftir öðru tilboði í fjörðinn því að nóg framboð sé af jörðum á þessum slóðum.

Maren svarar 20. janúar, árið eftir, og telur tilboðið alltof lágt og hafnar því afdráttarlaust; kaupverðið hafi verið kr. 2.000 og hún hafi oft fengið hærri tilboð. Henni sárnar og að Guðjón skuli aldrei hafa borgað neitt afgjald eftir fyrstu fimm árin og gerir nú tilkall þess. Nokkur orðaskipti og samningaviðræður fylgja í kjölfarið og loks gerir Maren Guðjóni tilboð um að allt verði látið halda áfram í sama fari, Guðmundur taki jörðina yfir og að landskuldin þaðan í frá skuli vera ein ær, loðin og lembd. Þetta verður úr og Guðjón flytur í Skjaldar-Bjarnarvík en selur Guðmundi syni sínum húsin í Þaralátursfirði og spinnast af því töluverðar sögur áður en gengið er frá málunum með byggingarbréfi, dagsettu 2. október 1939.

Guðmundur bjó síðan fram undir 1950 miklu stórbúi í Þaralátursfirði, líkt og faðir hans. Mun þar mest hafa verið um 200 fjár og dugði fjörubeitin til að halda því lifandi. Er það til marks um stórbúskap á þessu örreytiskoti síðustu árin að Guðmundur keypti þangað fyrstu vélina sem notuð var til að saga rekavið á Ströndum. Ýmsir höfðu ótrú á því tiltæki en þegar frá leið var haft á orði að „mikið helvíti hlyti hann Gvendur að græða á þessu.“

Nokkru eftir að Guðmundur fór úr Þaralátursfirði munu ferðamenn hafa kveikt í húsunum til að ylja sér og standa nú ekki eftir nema tóftirnar einar og mikið spýtnabrak.
Árið 1975 kom svo loks að því að erfingjar Baldurs sýndu þessu draumalandi einhvern sóma með landkönnunarleiðangri undir forystu Gunnars Össurarsonar í Örlygsshöfn í Rauðasandshreppi. Var það tíu tíma sigling fyrir Horn í Þaralátursfjörð þar sem leiðangursmenn slógu upp tjöldum og gistu eina nótt. Mun hafa verið spegilsléttur sjór og fjallasýn ágæt. Með í þeirri för voru Sigurður faðir minn og Ragnheiður systir hans ásamt manni sínum Páli Hafstað, Páll sýslumaður Hallgrímsson, Svava kona hans og Kristjana Kristinsdóttir, sérlegur fulltrúi föður síns. Þótti Gunnar standa sig með slíkri prýði í þessari ferð að hann var útnefndur hertoginn af Þaralátursfirði.

Á undanförnum árum hefur Hallgrímur Guðfinnsson úr Reykjarfirði stundum reynt að hafa nokkurt gagn af Þaralátursfirði, haldið þar við æðarvarpi, róið til fiskjar, skotið fugl og sel, safnað reka, týnt ber og fjallagrös og iðjað það annað sem mikill menningarauki hefur verið að. Hallgrímur ber nú einn titilinn hertoginn af Þaralátursfirði sem hann var sæmdur í annarri för á vegum landeigenda í fjörðinn árið 1988. En af því er önnur saga.

Fyrir hönd Gísla Sigurðssonar Reykjavík,

Sæbjörg
bb@bb.is

DEILA