Af hverju flutti ég vestur?

Þessi mynd sem við fjölskyldan tókum fyrir ári síðan er á engan hátt raunsæ. Börnin eru sjaldnast svona lengi kjur.

Fyrir fjórum árum hrúgaði ég helvítis helling af drasli í Lancerinn minn austur á Egilsstöðum, setti synina á toppinn og keyrði vestur á Flateyri með bílinn á rassgatinu. Þar var planið að klára meistararitgerðina mína í þjóðfræði, sem fjallar einmitt um Flateyri og gera ljósmyndarannsóknarverkefni um karlmennsku. Um haustið var svo ætlunin að fara aftur austur.

Það var ekki auðvelt að finna leiguíbúð á Flateyri vorið 2014 og í rauninni tók það mig þrjá mánuði að fá húsnæði. 17. júní gat ég þó flutt inn, í blokkina fyrir neðan þá sem ég bjó í með foreldrum mínum fyrsta árið mitt. En ég var Flateyringur númer 498 sem fæddist og 500 einstaklinga múrinn var brotinn sama ár, 1981. Við bjuggum þó ekki lengi fyrir vestan heldur fluttum norður í Skagafjörð þegar ég var á öðru ári og ég tel mig vera Skagfirðing. Vestfirðir hafa þó alltaf togað og ég grenjaði víst í hvert skipti sem við fórum þaðan úr heimsóknum þegar ég var krakki. Kannski var bara vegna þess hve leiðinlegt var að keyra Djúpið, hver veit.

En þarna árið 2014 ætlaði ég bara að vera á Flateyri með syni mína í tæpa 3 mánuði. Ég sá þó strax eftir 2 vikur að þarna vildi ég ala börnin mín upp. Við höfðum verið í Reykjavík og á Egilsstöðum árin á undan og drengirnir voru vel þjálfaðir í að hlaupa á eftir strætó og kaupa lakkrís í Kolaportinu. Í rauninni langaði mig að búa áfram í Reykjavík. Verða kannski aðstoðarkennari í Háskólanum með tímanum og geta skroppið á kaffihús eða skemmtilega veitingastaði með vinkonunum þegar mig langaði til. En ég hafði ekki efni á því. Það var einfaldlega of dýrt og of erfitt fyrir eina móður að halda fjölskyldunni uppi fyrir sunnan. Og mig langaði líka að börnin mín fengju að kynnast þeim lífsgæðum sem það eru að vaxa upp í dreifbýli, þar sem ekkert spennandi gerist nema þú búir það til sjálfur og allur heimurinn getur verið ævintýri ef þú nennir því. Ímyndunaraflið auðgast, allt verður mikilvægara.

Ég hringdi í fyrrverandi manninn minn á Egilsstöðum um miðjan júlí 2014 og sagði að ég kæmi ekki aftur austur. „Já já ég reiknaði svo sem ekki með því,“ sagði minn æðrulaus, „ég hef verið að bíða eftir því að þú færir endanlega vestur.“

Um haustið vantaði mig vinnu. Vitandi það að ég fengi tæplega starf sem hæfði háskólagráðunum, sem var hvort sem er ekki markmiðið heldur einfaldlega það að sjá fyrir fjölskyldunni, þá lagði ég af stað gangandi niður í frystihús á Flateyri. Á leiðinni hitti ég Eyþór í bókabúðinni sem benti mér á að sækja um sem blaðamaður á BB sem ég gerði og fékk starfið. Restin er history eins og einhver gæti sagt, ég hef unnið nokkur störf á Flateyri og Ísafirði síðan ég kom, öll eiginlega jafn skemmtileg. Og núna er ég að leysa Margréti Lilju af sem ritstjóri á BB. Sem mig hefði ekki grunað að myndi gerast þegar ég flutti og ætlaði að vinna í frystihúsinu.

Það sem meira máli skiptir er að síðan ég flutti vestur hef ég átt pening. Ég sem einstæð móðir gat loksins leyft börnunum mínum að stunda tómstundir og það var stór stund í lífi mínu þegar ég gat keypt notað trampólín fyrir strákana. Kannski finnst sumum það hallærislegt, að vera stolt af því að geta keypt trampólín. Mér er alveg sama. Það fólk hefur ekki upplifað það að láta börnin borða fyrst svo enginn verði svangur nema þú sjálfur. En núna á ég mann og annað barn, helling af dýrum og hús. Lífsgæði mín eru mjög góð. Af því ég flutti vestur.

Þetta er á allan hátt mun raunsærri mynd sem tekin er einhversstaðar í Djúpinu, fjölskyldan orðin létt klikk af löngu ferðalagi, sjoppuleysi og bleyjuskiptum á víðavangi.

Það er ekki alltaf átakalaust að setja ný börn í skóla þar sem allir hafa þekkst síðan í leikskóla. Og það er ekki átakalaust að flytja í fjörð þar sem sumir eru afskaplega íhaldssamir og konur ættu helst ekki að tjá sig því annars eru þær frekjur; þekkt stef fyrir alla femínista. En þetta er minnihlutinn. Almennt er fólk hér á svæðinu mjög opið, glaðlynt, skemmtilegt, stríðið og tilbúið að taka á móti öllum þeim sem hafa áhuga á að búa hér. Og það er stutt í aðra bæi.

Synir mínir þroskuðust mikið á að vera í litlum skóla á Flateyri. Feimni eldri sonur minn er ein af helstu ástæðum þess að ég vildi flytja, hann plumaði sig illa í skólum með fleiri en 100 nemendur. En á Flateyri þroskaðist hann, fékk mikið sjálfstraust og á endanum óx hann frá skólanum svo þeir bræður eru nú í skóla á Ísafirði. Af því að þetta er hægt hérna á norðanverðum Vestfjörðum. Það er svo stutt á milli þorpa og bæja að við getum sett börnin okkar í þá skóla sem henta þeim best. Eftir skóla leika þeir svo bara áfram við félagana á Flateyri. Þetta er ekki klippt og skorið. Og við getum sjálf fundið okkur tómstundir og vini þar sem okkur hentar best. Þó við viljum búa í einu þorpi, þá er ekki þar með sagt að við þurfum að gera allt þar, möguleikarnir eru svo miklu meiri.

Ég áttaði mig á því um daginn að ég gæti aldrei flutt frá Vestfjörðum. Og þegar ég hlustaði á Þórodd Bjarnason segja frá því í Vísindaporti á föstudaginn að það væri helst fólk á aldrinum 30-39 ára sem væri að flytja aftur vestur, og börn á aldrinum 0-9 ára, áttaði ég mig á því að ég er ein af þessu fólki í tölfræðinni hans. „Okkur mun fjölga,“ sagði Guðmundur bæjarstjóri í viðtali á N4 og Jón Páll Hreinsson og hans flotta fólk í Bolungarvík undirbýr vaxandi Vestfirði með því að stækka leikskólann. Það er hrikalega spennandi að búa fyrir vestan núna. Allt að gerast og möguleikarnir samt endalausir. Bæði til að gera allt en líka bara búa og njóta. Fara út í sjoppu á náttbuxunum og spjalla við nágranna á miðri götu.

Mig langar að skora á vinkonu mína Esther Ösp Valdimarsdóttur á Hólmavík til að deila með okkur af hverju hún flutti vestur. Hverjir eru kostirnir og hverjir eru gallarnir? Og mig langar líka að biðja Esther að skora á einhvern annan þegar hún hefur skrifað og saman getum við séð hvort annað og skilið af hverju við erum hér, en ekki einhversstaðar annarsstaðar.

Sæbjörg Freyja Gísladóttir

DEILA