Ætlar að taka saman skrýtlur Sólons Guðmundssonar

Sólon Guðmundsson. Mynd: Ljósmyndasafn Ísafjarðar.

Það er löngu ljóst að Elfar Logi Hannesson ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur. Hann er alltaf með mörg járn í eldinum og svo virðist sem hann geti endalaust bætt við fleirum. Núna ætlar hann að safna efni um hinn einstaka vestfirska listamann, Sólon Guðmundsson sem kenndur er við skringimusteri sitt Slunkaríki. Sólon orti vísur, sem hann vildi frekar kalla skrýtlur. Elfar Logi sagði blaðamanni BB að saga Sólons hafi hitt hann í hjartastað.

„Ég er í þeirri deild að ef mér dettur eitthvað í hug þá framkvæmir ég flest af því, ekki kannski allt. Ég var að lesa Íslenskan aðal sem Þórbergur Þórðarson skrifaði og segir frá vestfirskum listamönnum, meðal annars Stefáni frá Hvítadal sem var fyrsti innfæddi Hólmvíkingurinn. Þar sem ég var að grúska í þessu þá er ég aftur leiddur að Sólon sem bjó í þessu sérstaka húsi í hlíðinni á Ísafirði, Slunkaríki. Ég rölti einmitt oft þarna þegar ég bjó á Ísafirði og pældi í því hvað hann hafði gott útsýni yfir Eyrina.“ segir Elfar Logi.

Elfar Logi segir að það þyrfti einhver að taka að sér að endurbyggja Slunkaríki þarna í hlíðinni. Hann segir að hlíðin bíði einfaldlega eftir því að fá ríki Sólons aftur en því miður sé hann sjálfur bara enginn smiður, annars væri hann löngu farinn í það verkefni!

Elfar segir að það sé skemmtilegur og beittur húmor í skrýtlunum hans Sólons. En verkefnið sé snúið þar sem þetta er hvergi aðgengilegt. „Þórbergur segir í Íslenskum aðli, þessari merku bók, að það þyrfti einhver að taka sig til og safna þessum skrýtlum saman og gefa út á bókverki. Þetta sagði hann fyrir 60 árum síðan og mér finnst kominn tími til að ganga í málið. En hvenær þetta kemur út veit ég ekki. Það var gaman að ég fékk eina skrýtlu senda frá Hnífsdal í morgun frá manni sem bara kunni eina en hún er hvergi til á blaði. Það heillar mig alltaf mest að fara í einhver verkefni sem virðast vera ómöguleg að framkvæma og þetta er svona eitt af þeim, það er alltaf svo skemmtilegt að vinna eitthvað þannig.“ segir Elfar.

Elfar Logi vill gjarnan biðja lesendur að hafa samband við sig og senda sér skrýtlur eða bara hvaða upplýsingar sem er um þennan merka Vestfirðing. „Guðfinna Hreiðarsdóttir á Ísafirði smitaði mig af þessari bakteríu. Hún ritaði afskaplega góða og fallega grein um Sólon í ársrit Sögufélags Ísafjarðar fyrir nokkrum árum. Hún sendi mér líka þessa einu mynd sem til er af honum, þar sem hann stendur eins og tröll með ljáinn. Maður verður hálf hræddur, en hann var blíður og góður maður, bara ískyggilegur á þessari mynd!“ segir Elfar Logi að lokum.

Aron Ingi
aron@bb.is

DEILA