Ætla að endurskoða starf tómstundafulltrúa

Frá Grettislaug í Reykhólahreppi. Mynd: Reykhólahreppur.

Fram kemur í fundargerð sveitarstjórnar Reykhólahrepps að settur verði á laggirnar starfshópur um endurskoðun á starfi tómstundafulltrúa sveitarfélagsins. Starfshópnum verði falið að vinna að og leggja til breytingar á starfi tómstundafulltrúa í samræmi við nútímakröfur um tómstundastarf. Segir í fundargerðinni frá 16. ágúst síðastliðnum að starfshópurinn geti kallað til starfsmenn sveitarfélagsins sem koma að málefninu á einhvern hátt, svo sem tómstundafulltrúa, félagsmálafulltrúa, skólastjóra, ráðgjafa fyrirtækisins Tröppu og fleiri.

Þá hvetur sveitarstjórn starfshópinn til að hafa samráð við félag eldri borgara, ungmennaráð og íþróttafélag sveitarfélagsins. Starfshópnum er gert að skila inn skýrslu fyrir 1. nóvember 2018 næstkomandi. Segir einnig í fundargerðinni að skýrsluna muni sveitarstjórn síðan hafa til hliðsjónar við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2019. Starfshópinn skipa eftirfarandi aðilar: Árný Huld Haraldsdóttir, Ásta Sjöfn Kristjánsdóttir og Íris Ósk Ingadóttir og mun starfshópurinn velja
sér formann.

Á fyrrnefndum fundi sveitarstjórnar þann 16. ágúst síðastliðnum dró starfandi tómstundarfulltrúi, Jóhanna Ösp Einarsdóttir, uppsögn sína til baka en óskaði jafnframt eftir að fá leyfi frá störfum frá 14. september og fram að áramótum, á meðan starfið verði endurskoðað. Segir jafnframt að starfandi tómstundarfulltrúi sé tilbúin að klára stofnun ungmennaráðs í leyfi sínu og sitja fundi með starfshóp. Einnig mun hún reyna að finna starfsfólk til að sinna félagsmiðstöð og vera þeim til halds og trausts sé þess óskað.

Fram kemur í bókun fundarins að sveitarstjórn fagni því að tómstundafulltrúi sé tilbúin að draga uppsögn sína til baka og samþykkir óskir hennar um leyfi samkvæmt þeim dagsetningum sem settar voru fram.

Aron Ingi
aron@bb.is

DEILA