„Yndislegt að koma heim“

Gylfi Ólafsson er forstjóri Heilbrigðisstofnunnar Vestfjarða.

Gylfi Ólafsson var ráðinn forstjóri Heilbrigðisstofnunnar Vestfjarða fyrir nokkru eins og margir vita. Hann er fluttur aftur á Ísafjörð, með Tinnu konu sinni og tveimur börnum og er að koma sér fyrir í nýju starfi. Gylfi segir það ekki vera óalgengt að svo ungur maður, eða 35 ára, taki við forstjórastöðu. Meiru máli skipti að reynslan sé til staðar og hún er það svo sannarlega hjá Gylfa. Hann er menntaður heilsuhagfræðingur, hefur reynslu af rekstri, mannaforráðum, stjórnsýslu og fjárlagagerð svo fátt eitt sé nefnt. „Í raun er það ekki aldurinn sem skiptir máli,“ segir Gylfi, „heldur frekar að hafa þokkalega fjölbreytta reynslu og geta verið fljótur að setja sig inn í mál. Ég þekki ekki nákvæmlega smáatriðin hérna en er snöggur að koma mér inn í mál. Svo vinnur það með mér að ég þekki meira en helminginn af starfsfólkinu,“ segir forstjórinn.

Gylfi segir að honum gangi mjög vel að koma sér fyrir í starfinu. Nýlega rann út umsóknarfrestur fyrir tvær stórar stöður hjá Heilbrigðisstofnunni en hann segir að vel gangi að manna stöður á Patreksfirði. „Það sem var mögulega satt í gamla daga um að starfsandinn væri slæmur hérna, er ekki rétt lengur. Hér á stofnuninni er mjög fínn andi og allir mjög samhentir í að skila góðu starfi. Stofnunin getur verið mjög stolt af því starfi sem hér er unnið og Vestfirðingar allir,“ segir hann þegar blaðamaður spyr hvernig starfsandinn sé á sjúkrahúsinu.

„Við erum búin að ráða sálfræðing sem verður í 20 % stöðu, við erum búin að ráða hjúkrunarfræðing sem verður í hálfri stöðu og saman munu þau með yfirlækni mynda geðheilsuteymi sem að fer af stað á næstu dögum,“ segir hann enn fremur. Stofnunin er þó ennþá með lausa stöðu sálfræðings og taka við umsóknum. „Við höfum í hyggju að halda áfram að efla þetta starf enn frekar, meðal annars í samstarfi við menntaskólann. Það hefur verið sálfræðiþjónusta þar og það er áfram samvinnuverkefni með skólanum sem við þurfum að vinna úr.“

En hvernig skyldi vera að flytja heim aftur eftir tólf ár í burtu? Hvers saknar fólk helst úr höfuðborginni? Gylfi segir að hann sakni helst betra úrvals af grænmetisfæði, enda sé hann kjötleysingi. Hann borðar þó fisk. Margir vina þeirra hjóna eru enn fyrir sunnan en Gylfi hefur ekki áhyggjur af því, „maður tekur upp nýja siði og nýjan vinskap hér,“ segir hann. „Svo er Ísafjörður frábær til að nota hjól sem samgöngutæki, það mætti alveg koma betur fram.“

Þau hjónin eru búin að festa kaup á húsnæði og börnin byrja fljótlega í leikskóla. „Það er yndislegt að koma heim,“ segir hann. „Hérna er alltaf eins og maður sé á fundi vina. Hvar sem maður fer, hvort sem maður fer í búðina eða annað, þá er ég alltaf umkringdur fólki sem ég þekki og þykir vænt um, hefur áhuga á mér og fjölskyldu minni og sem ber hag okkar fyrir brjósti.“

Tinna kona Gylfa fjarvinnur frá auglýsingastofunni sem hún vann á áður. „Hún er að einhverju leyti að fórna sér fyrir starfsframa mannsins síns en hún er náttúrulega að koma heim líka, mamma hennar og stórfjölskylda býr hér,“ segir Gylfi. Þegar blaðamaður spyr hann hverjar hann telji að verði helstu áskoranirnar í nýja starfinu segir hann það vera að styðja við starfið sem að nú er til staðar og bætir við: „Og sannast sagna að bæta ímynd stofnunarinnar enn frekar. Ég held að það sé ýmislegt sem má betur fara. Þannig að það verður áskorun og einnig að tryggja að við séum áfram með gott og hæft fólk í öllum stöðum.“

Sæbjörg
bb@bb.is

DEILA