Yfir 60 manns sóttu íslenskunámskeið

Nemendurnir sem voru á byrjendanámskeiðunum ásamt kennurum og starfsfólki. Mynd: Háskólasetur Vestfjarða.

Undanfarnar tæpar fimm vikur hafa staðið yfir íslenskunámskeið við Háskólasetur Vestfjarða eins og hefð er fyrir í ágúst en frá þessu er sagt á heimasíðu þeirra. Námskeiðin hófust þann 30. júlí síðastliðinn og voru bæði í boði byrjendanámskeið sem og framhaldsnámskeið. Í ár var ákveðið að dreifa námskeiðunum yfir fimm vikna tímabil í júlí og ágúst í stað þess að kenna námskeiðin öll á þriggja vikna tímabili. Þetta er einkum gert til að dreifa álagi á gististaði en nokkuð hefur borið á því að nemendur eigi erfitt með að finna gistingu í allt að þrjár vikur samfleytt á Ísafirði.

Að þessu sinni hafa yfir sextíu manns sótt námskeiðin ef með er talið vikunámskeið sem fram fór í maí. Nemendurnir koma víða að, flestir frá Evrópu og Bandaríkjunum, en einnig sækja námskeiðin einstaklingar sem eru búsettir á Vestfjörðum. Einstaka nemendur koma þó lengra að en að þessu sinni komu tveir þeirra alla leið frá Ástralíu.

Á Ísafirði eru einstaklega góðar aðstæður til að læra íslensku og má segja að allur bærinn breytist í kennslustofu á meðan á námskeiðunum stendur. Háskólasetrið og kennarar á námskeiðinu hvetja nemendur til að nýta sér dvölina sem best og tala íslensku í sínu daglega lífi í bænum. Jafnframt hefur Háskólasetrið hvatt bæjarbúa og fyrirtæki til að taka þátt í þessari óformlegu kennslu eins og fram kemur í aðsendri grein Ólafs Guðsteins Kristjánssonar kennara í BB. Þetta er mikilvægur liður í kennslunni því þegar nemendur eru komnir alla leið til Íslands til að læra tungumálið er mikilvægt að nýta aðstæður sem best. Það er hægt að læra tungumál af bókum og vefsíðum hvar sem er í heiminum en hér gefst nemendum einstakt tækifæri til að nota kunnáttu sína í raunaðstæðum.

Þegar námskeiðunum lýkur nú í lok vikunnar verður strax hafist handa við að undirbúa næsta ár og er stefnt að því að gefa út dagsetningar fyrir námskeið ársins 2019 í byrjun október.

Sæbjörg

bb@bb.is

DEILA