Vissir þú af Grasagarðinum í Bolungarvík?

Sumir staðir eru svo augljósir að þeir fara fram hjá flestum sem eiga leið um. Einn þessara staða, sem er svo smár en inniheldur þó svo mikið, er Grasagarðurinn í Bolungarvík. Hann er staðsettur rétt við hliðina á Félagsheimilinu svo margir Vestfirðingar hafa eflaust gengið margoft framhjá honum. Sjálfsagt er hér ekki um neinar fréttir að ræða fyrir Víkara en það er engu að síður fréttnæmt fyrir aðra, að þarna skuli fara fram rannsóknir undir beru lofti og aðgangur að safngripum vera opinn fyrir augu almennings, hvenær sem hann lystir að ljúka augum upp fyrir leyndardómum jurtaflórunnar.

Markmið Grasagarða Vestfjarða er að varðveita íslenskar tegundir af plöntum og þá sérstaklega vestfirskar eins og segir hjá Náttúrustofu Vestfjarða. Lífríki er breytilegt hér á Vestfjörðum vegna veðurfræðilegra aðstæðna svo erfðafræðilegi breytileikinn getur verið mikill. Þess vegna er ástæða til að varðaveita mismunandi kvæmi af sömu plöntunum frá ýmsum stöðum.Sýningin miðlar þekkingu á sérstöðu vestfirsks gróðurfars og auðveldar fólki að kynnast þeim plöntum sem eru á svæðinu.

Slæðingur í Grasagarðinum.

Náttúrustofa Vestfjarða hóf uppbyggingu á grasagarði í Bolungarvík sumarið 2010 þegar sýningasvæðið var sett upp. Áhugasamir geta nýtt garðinn fyrir útikennslu í náttúrufræði og þarna gefst almenningi af mörgum þjóðernum einnig tækifæri til að fræðast um nytjaplöntur. Hver planta er nefnilega merkt sérstaklega á íslensku, latínu, þýsku og ensku svo að erlendir ferðamenn geti einnig notið sýningarinnar.

Þar sem grasagarðurinn á að geta nýst fyrir ýmsar rannsóknir tengdar gróðri á Vestfjörðum eru plönturnar skráðar niður í gagnagrunn sem geymir upplýsingar um hverja plöntu, hvenær henni var safnað, hvar hún var tekin og GPS staðsetningarhnit hennar.Þessar upplýsingar geta opnað marga möguleika í framtíðinni, til dæmis til að skoða áhrif hlýnunar loftslags á plöntur. Aðgangur að sýningunni er endurgjaldslaus og eykur framboð á efni fyrir alla sem áhuga hafa á að kynna sér þennan hluta íslenskrar náttúru.

Þarna leynist Grasagarðurinn við hliðiná Félagsheimilinu.

Sumarið 2014 var sett upp sýnng í grasagörðunum tengd nytjajurtum fyrr og nú. Sýningin var styrkt af Pokasjóði. Hægt er að sjá nytsemi plantnanna til kukls, lækninga, matar eða annarra hluta. Nöfnin eru á íslensku, ensku og þýsku og það er afar áhugavert að skoða plönturnar sem við þekkjum svo vel í náttúrunni og lesa hvaða gagn má hafa af þeim.

Sæbjörg

bb@bb.is

DEILA