Vel gekk að ná bátnum á flot í Þaralátursfirði

Það hefur verið nóg um að vera hjá áhöfn Gunnars Friðrikssonar en á dögunum hélt skipið í Þaralátursfjörð og dró bát sem hafði rekið upp í fjöru af strandstað. Gauti Geirsson, stjórnarmeðlimur Björgunarbátasjóðs Vestfjarða sagði blaðamanni BB að vel hafi gengið að draga bátinn út. „Þetta voru tvær tilraunir, fyrst var kallað í okkur fyrir rúmri viku þegar það uppgötvaðist að báturinn væri orðinn strand, þá var farið á staðinn en ákveðið var að bíða með frekari aðgerðir þangað til að það yrði stórstreymt og meira flæði. Báturinn hafði borist upp einhverja daga áður en við fengum þetta útkall og var kominn svolítið hátt upp. Svo var í samráði við eigenda bátsins og tryggingafélag ákveðið að fara af stað á laugardaginn, það var búið að undirbúa það vel og það tókst mjög vel að draga hann út og draga hann til Ísafjarðar. Þetta er löng sigling en heppnaðist vel. “segir Gauti.

Gauti segir að það hafi mætt mikið á áhöfn skipsins að undanförnu, en það hafa verið 15 útköll síðan í júní byrjun. „Það hefur verið mikið að gera í sumar. Það hefur gengið vel yfir höfuð, þetta eru bæði sjúkraflutningar á Hornstrandir þegar fólk er að slasa sig þar og svo eru vélavana bátar líka stór hluti af þessu. En svo er allt þar á milli líka, bæði bátar að stranda og svo hefur kviknað í og þar frameftir götunum.“ segir Gauti.

Að sögn Gauta eru björgunarstörf oft sveiflukennd en hann segir að starfsemin í sumar sé í meira lagi miðað við hans reynslu. „Það er eins og áður segir, búið að vera mikið síðustu tvo mánuði. Þess ber að gera að þetta væri náttúrulega ekki hægt án sjálfboðaliða sem leggja mikið á sig og stökkva úr sínu daglega amstri og svo styrktaraðiliar sem halda okkur uppi. Það eru þessir tveir þættir sem gera okkur kleift að sinna þessu starfi.“ segir Gauti að lokum.

Aron Ingi
aron@bb.is