Umsóknarfrestur um stöðu sveitarstjóra Tálknafjarðar til 23. ágúst næstkomandi

Staða sveitarstjóra í Tálknafirði hefur verið auglýst aftur líkt og BB greindi frá á dögunum, en minnihluti sveitarstjórnar Tálknafjarðar sendi frá sér tilkynningu nýverið þar sem sagt var frá því að ákvörðun hafi verið tekin um að auglýsa aftur eftir sveitarstjóra á Tálknafirði þar sem viðræður við líklega kandídata báru ekki árangur.

Bjarnveig Guðbrandsdóttir vildi ekki tjá sig frekar um málið í samtalið við blaðamann BB en staðfesti að staðan hefði verið auglýst aftur og sagði að unnið yrði náið með fyrirtækinu Capacent í ráðningarferlinu. Hún staðfesti einnig að viðræður við kandídata hefðu ekki borið árangur eins og gæti gerst í svona ferli. Umsóknarfrestur um stöðuna væri til og með 23. ágúst næstkomandi.

Sveitarfélagið hafði birt lista yfir þá níu einstaklinga sem sótt höfðu um stöðu sveitarstjóra eftir að upprunalegur umsóknarfrestur rann út þann 16. júlí síðastliðinn, en umsækjendur voru upphaflega fleiri en einn dró umsókn sína til baka. Sum af nöfnum þeirra sem sóttu um mátti sjá hjá öðrum sveitarfélögum landsins.

Úrslit sveitarstjórnarkosninga í Tálknafjarðarhreppi þann 26. maí síðastliðinn voru þannig að E- Listi áhugafólks um eflingu samfélagsins hlutu 47 atkvæði og 1 fulltrúa og Ó- Listi óháðra fengu 96 atkvæði og 4 fulltrúa. 162 voru á kjörskrá og greiddu 146 atkvæði og kjörsókn því 90,12%.

Bjarnveig Guðbrandsdóttir var kosinn oddviti og varaoddviti var kosinn Björgvin Smári Haraldsson. Guðný Sverrisdóttir var skipuð tímabundið sem sveitastjóri meðan að leit að nýjum sveitastjóra stendur yfir. Bjarnveig sagði í samtali við BB fyrr í sumar að ný sveitarstjórn ætli að vinna að betra samfélagi í sameiningu. Sagði hún að framtíð Tálknafjarðar væri björt og að það væri mikið af ungu fólki sem kæmi að nýrri sveitarstjórn.

 

Aron Ingi

aron@bb.is

 

Myndakredit: Julie Gasiglia

Myndatexti: Umsóknarfrestur um stöðu sveitarstjóra í Tálknafirði er til 23. ágúst næstkomandi

DEILA