U16 í körfuknattleik drengja komnir til Sarajevo

Landslið U16 í körfuknattleik drengja. Mynd: KKÍ

Í gærmorgun héldu leikmenn og fylgdarlið U16 ára landsliðs drengja í körfubolta út til Sarajevo í Bosníu þar sem þeir mun leika á Evrópumóti FIBA dagana 9.-18. ágúst. Tveir Ísfirðingar eru í liðinu, þeir Hilmir og Hugi Hallgrímssynir og má ætla að ferðir af þessu tagi séu mikið ævintýri. Liðið ferðaðist í gær og í dag eru þeir að koma sér fyrir og taka æfingu og hefja svo leik á morgun.

Íslenska liðið leikur í riðli með Finnlandi, Póllandi, Ungverjalandi, Búlgaríu og Kýpur en eftir að honum lýkur verður spilað um öll sæti keppninnar í úrslitakeppni. Alls eru 24 lið í B-deild Evrópukeppninnar þar sem Ísland tekur þátt. 16 lið leika í A-deild og 10 lið í C-deild og því 50 af 51 evrópulöndum innan FIBA sem taka þátt í U16 keppni drengja í ár.
Keppnin hefst á morgun eins og fyrr segir en þá mætir Ísland Finnlandi klukkan 19. Allir leikirnir eru í beinni útsendingu á YouTube-rás FIBA og einnig er lifandi tölfræði frá öllum leikjum þannig að mjög auðvelt er að fylgjast með leikjum ÍSLANDS á EM yngri liða.

Sæbjörg
bb@bb.is

DEILA