Strandir í verki hafa gengið vel

Nú í sumar hefur verið boðið upp á skemmtilega nýjung fyrir ungmenni í Strandabyggð en það er þátttaka í verkefninu Strandir í verki. Markmið verkefnisins er að gefa ungmennum í samfélaginu tækifæri til að vinna við listsköpun í sinni heimabyggð. Strandir í verki kom til að frumkvæði Leikfélags Hólmavíkur en er unnið í samstarfi við Rannsóknarsetur Háskóla Íslands í þjóðfræði, Sauðfjársetur á Ströndum og Strandabyggð. Auk þess fékk verkefnið styrki frá Fjórðungssambandi Vestfjarða og Sparisjóði Strandamanna.

Rakel Ýr Stefánsdóttir var ráðin listrænn stjórnandi verkefnisins og þrjár stúlkur á Hólmavík hafa tekið þátt í sumar, þær Bára Örk Melsted, Alma Lind Ágústsdóttir og Ingibjörg Jónsdóttir. Þær Bára og Alma eru enn að vinna við verkefnið og hitti blaðamaður BB þær til að heyra hvað þær hefðu verið að gera í sumar: „Við erum búnar að gera mjög margt og aðallega verið að skrifa, semja og vinna í leikverkum. Skrifað ljóð og texta og verið mikið í skapandi skrifum,“ segir Bára. Þær hafa líka tekið þátt og komið fram á fjórum hátíðum á svæðinu, vorhátíð leikskólans á Hólmavík, Hamingjudögum á Hólmavík, Náttúrubarnahátíð á Ströndum og Reykhóladögum. Á hátíðunum unnu þær þó nokkuð með galdraþemað: „Við skoðuðum þjóðsögur af svæðinu og bjuggum til þrjár nornir sem voru fortíð, nútíð og framtíð, svona örlaganornir sem segja þessar þjóðsögur og leika þær, svo vorum við með spádómstjald“ segir Alma.

Auk þessa hafa þær haldið fjóra viðburði á Hólmavík í sumar, Open mic skemmtikvöld á Café Riis og eru nú að sýna frumsamið nútíma leikverk sem heitir OF (S)EIN: „Það fjallar um flókin samskipti og smá einangrun. Tvær ólíkar einmana persónur sem eru í mjög erfiðum samskiptum. Þetta byggir svolítið mikið á túlkun“ segir Bára, „þetta er samt gamanleikrit“ bætir Alma við og hlær og Bára tekur undir. Í kvöld, miðvikudaginn 1. ágúst, er svo síðasta sýning verksins klukkan 20:00 í félagsheimilinu á Hólmavík. Frítt er inn á sýninguna en frjáls framlög eru vel þegin. Tekið er fram að sýningin henti ekki yngri börnum.

Framundan eru svo mest skýrslu skrif og úrvinnsla: „Klára að ganga frá lausum endum“ segir Alma. „Svo ætluðum við að gera kynningarvídeó um verkefnið, ef það yrði gert aftur gæti það verið eins og kynning, í rauninni skýrslan í myndrænu formi. Og kannski taka saman textana og ljóðin sem við höfum skrifað og setja saman í litla bók, en það fer bara eftir því hvað við höfum mikinn tíma“ segir Bára.

Stelpurnar segja vinnuna hafa gengið vel í sumar: „Það er mjög krefjandi að vera svona fáar en það er samt líka kostur, maður lærir eiginlega miklu meira og hlutirnir gerast miklu hraðar en það er samt líka takmarkandi. Ég held að það sé mjög hollt að taka þátt í svona verkefni. Ég er búin að læra mjög mikið um samfélagið, sjálfa mig, umhverfið og sögu bæjarins“ segir Bára og Alma tekur undir og segir verkefnið hafa verið mjög skemmtilegt „pínu stress en mjög gott stress“ bætir Alma við. „Það er alltaf eitthvað að gera. Þegar við fórum að sýna á Reykhóladögum sagði einhver við okkur: „Vá þið eruð bara alls staðar, það var pínu fyndið” segir Bára að lokum.

Dagrún
dagrun@bb.is