Rafræn kosning hjá Neytendasamtökunum til að mæta landsbyggðinni

Það er mikilvægt að nýta tæknina og hafa það rafrænt sem hægt er til að koma til móts við landsbyggðina. Súðavík: Mats Wibe Lund.

Til að koma til móts við landsbyggðina og þá sem komast ekki á þingið verður kosning formanns Neytendasamtakanna og stjórnar rafræn og hafa allir sem skrá sig á þingið rétt til að taka þátt í kosningunni.
Staðsetning þingsins verður tilkynnt síðar en þingið verður jafnframt rafrænt til að auðvelda fólki þátttöku m.a. þeirra sem búa utan höfuðborgarsvæðisins. Samkvæmt lögum samtakanna þurfa félagsmenn að skrá sig á þingið eigi síðar en á hádegi þann 20. október. Þeir einir geta tekið þátt í þingi samtakanna sem eru félagsmenn og eru skuldlausir við samtökin viku fyrir þingið. Greiðsla félagsgjalda er ekki möguleg á þinginu.
BB leitaði álit Stefáns Hrafns Jónssonar, varaformanns Neytendasamtakanna og hann hafði þetta að segja:

„Í einhverja áratugi hafa Neytendasamtökin unnið eftir lögum sem segja að kosið skuli til stjórnar á reglulegu þingi samtakanna sem jafnan er á höfuðborgarsvæðinu og þá oftast í Reykjavík. Núverandi stjórn fékk álit frá lögfræðingi sem þekkir vel til félagaréttar. Í ljósi þess álits var ákveðið að hafa rafrænt þing þar sem fólk ýmist mætir á staðinn eða tekur þátt með rafrænum hætti.
Á síðasta þingi samtakanna árið 2016 vann sá formannskjörið sem smalaði flestum á þingið og sat því sem formaður, að mínu mati, með takmarkað lýðræðislegt umboð félagsmanna. Vissulega tíðkast víða að smala á kjörstað, t.d. þegar stjórnmálaflokkar keyra fólk á kjörstað (minniháttar smölun), en þegar það er gert með skertu aðgengi sumra að kjörstað þá eru slíkar kosningar ólýðræðislegar. Hætta er á að félagsmenn sem eiga erfitt með að komast í þingsal á höfuðborgarsvæðinu, t.d. vegna búsetu eða af öðrum orsökum, líti ekki á samtökin sem sín og þannig grefst smátt og smátt undan þessum öflugu landssamtökum. Persónulega finnst mér í góðu lagi að halda aðalfund samtakanna t.d. á Húsavík, Egilsstöðum eða Ísafirði á 65 ára fresti, jafnvel oftar. Stjórnin ákvað hins vegar að fara þetta skref núna og hafa rafrænt þing.
Það er von mín og annarra í stjórn að sem flestir félagsmenn skrái sig á þingið, annað hvort rafrænt þing eða mæti í eigin persónu. Fjölmargir hafa boðið sig fram til setu í stjórn. Það er afar mikilvægt fyrir nýja stjórn að hafa sterkt ótvírætt umboð félagsmanna til að halda áfram að leiða það góða starf sem Neytendasamtökin hafa sinnt undanfarin 65 ár.“
Rafrænar kosningar til stjórnar verða framkvæmdar með notkun persónuauðkenna þar sem fólk notar ýmist rafræn skilríki eða Íslykil. Hvorki verður fylgst með mætingu á þingið né verður þátttakendalisti birtur. Kjörskrá verður eytt að loknum kosningum. Gert er ráð fyrir að kosningar hefjist um hádegi þann 27. október og standi til hádegis daginn eftir. Þann 28. október mun kjörnefnd tilkynna úrslit kosninga, ný stjórn tekur við og þingi slitið. Til þess að geta tekið þátt í rafrænni kosningu þarf fólk að skrá sig á þingið, óháð því hvort það mæti í eigin persónu eða ekki. Skráðu þig á þingið hér.

Sæbjörg
bb@bb.is

DEILA