Ólafsdalshátíðin haldin síðastliðna helgi

Trúðurinn Willy skemmtir gestum hátíðarinnar. Mynd: Ólafsdalur.

Ólafsdalshátíðin var haldin síðastliðinn laugardag. Dagskráin var fjölbreytt og blanda af fróðleik og skemmtun, auk þess sem boðið var upp á markaðstorg. Ekki skemmdi fyrir blíðskaparveðrið sem lék við gesti hátíðarinnar þennan dag.

Dagskráin hófst klukkan 11:00 þegar farið var í gönguferð að víkingaaldarskálanum í Ólafsdal og hann skoðaður ásamt öðrum minjum. Rúmlega 90 manns mættu í skipulagða göngu í fylgd Birnu Lárusdóttur fornleifafræðings, til að skoða skálarústina sem nú er hulin hvítum dúk og torfusneplum fram á næsta vor. Margir tengjast dalnum á einhvern hátt og mikill áhugi er á rannsókninni.

Markaður var settur upp á hátíðinni. Mynd: Ólafsdalur.
Gestir virða fyrir sér víkingaaldarskálann í leiðsögn Birnu Lárusdóttur. Mynd: Ólafsdalur.

Klukkan 12:00 hófst svo sala á miðum í Ólafsdalshappdrættinu þar sem glæsilegir vinningar voru í boði. Strax í kjölfarið hófst svo Ólafsdalsmarkaður, þar sem var til sölu Ólafsdalsgrænmeti, Erpsstaðaís og kræklingur frá Nesskel svo eitthvað sé nefnt, auk þess sem fjölbreyttur matar- og handverksmarkaður var settur upp. Á sama tíma voru ýmsar sýningar í Ólafsdalsskólanum.

Klukkan 13.00 var svo hátíðardagskráin formlega sett þegar Eyjólfur Ingvi Bjarnason, oddviti Dalabyggðar, flutti ávarp. Í kjölfarið voru ýmsir fyrirlestrar fluttir auk þess sem Snorri Helgason flutti lög, Gunnar Hansson í hlutverki Frímanns kitlaði hláturtaugar gesta og trúðurinn Willy skemmti börnum á öllum aldri. Kvenfélagið Assa bauð upp á veitingar á góðu verði og börnum gafst kostur á að fara á hestbak.

Hátíðinni lauk svo er dregið var í Ólafsdalshappdrættinu um eftirmiðdaginn og voru gestir og gangandi sammála um að hátíðin hafi verið einstaklega vel heppnuð.

Aron Ingi
aron@bb.is

DEILA