Nefndarstarf í Strandabyggð komið á fullt

Hólmavík. Mynd: Jón Jónsson.

Haldinn var fundur í sveitarstjórn Strandabyggðar 14. ágúst og var þar meðal annars farið yfir fundargerðir atvinnu-, dreifbýlis- og hafnarnefndar, fræðslunefnar og umhverfis- og skipulagsnefndar. Aðalbjörg S. Sigurvaldadóttir, Eiríkur Valdimarsson, Guðfinna Lára Hávarðardóttir, Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Gísli Jónsson og Þorgeir Pálsson sveitarstjóri sátu fundinn.

Í fundargerð atvinnu-, dreifbýlis- og hafnarnefnar var meðal annars rætt um fjallskilaseðil en lagt er til að fyrstu leitir verði 8.-9. september. Þá var talað um mikilvægi þess að ferðaþjónusta og sjávarútvegur við höfnina fari saman. Einnig var rætt um að setja upp eftirlitsmyndavélar meðal annars við höfnina.
Í fundargerð fræðslunefndar var talað um innleiðingu nýrra persónuverndarlaga og að hafa starfsdaga allra skólastiga á sama tíma. Búið er að ráða í allar stöður Grunnskólans á Hólmavík nema tónlistarkennara.
Í fundargerð umhverfis- og skipulagsnefndar var rætt um gáma- og geymslusvæði og rætt var um slæma umgengni þar í kring. Ákveðið var að ráðast í umhverfisátak í Strandabyggð í haust og að byrjað yrði á Skeiðinu á Hólmavík þar sem ekið er inn í bæinn.

Voru allar fundargerðirnar samþykktar einróma af sveitarstjórn og eru birtar á vef Strandabyggðar.

Dagrún Ósk
dagrun@bb.is

DEILA