Landsbókasafn 200 ára, fjöldi tímarita þar frá Vestfjörðum

Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn er 200 ára um þessar mundir, en opinber afmælisdagur er talinn 28. ágúst. Safnið er því ein af elstu stofnunum landsins. Haldið er upp á afmælið allt árið og stendur safnið fyrir margvíslegum viðburðum, auk þess að taka þátt í viðburðum vegna 100 ára afmælis fullveldis Íslands.

Á afmælisdaginn er almenningi sérstaklega boðið að koma og skoða safnið og húsakynni þess og einnig að heimsækja hina fjölmörgu vefi safnsins sem má sjá á https://landsbokasafn.is/.

Á tímarit.is má finna þessi áhugaverðu rit frá Vestfjörðum

Vestri (1901-1918)
http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=2335430
Vesturland (1923 – til dagsins í dag)
http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=5006592
Skutull (1923- til dagsins í dag)
http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=4996358
Vestfirðir (2012 frá 2. tbl – til dagsins í dag)
http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=6109775
Bæjarins besta (gefið út frá 1984 – á vefnum frá 2007 til dagsins í dag)
http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=6231019

Saga Landsbókasafnsins er þannig að 28. ágúst 1818 barst Árna Helgasyni dómkirkjupresti og forseta Reykjavíkurdeildar Hins íslenska bókmenntafélags bréf frá Geir Vídalín biskup þar sem hann segist munu biðja danska kansellíið um fjárstyrk fyrir húsnæði fyrir bókasafn á dómkirkjuloftinu. Þessi dagur, 28. ágúst 1818, er talinn stofndagur Stiftsbókasafnsins, eins og Landsbókasafnið hét fyrstu áratugina. Safnið er því 200 ára þennan dag.

Upphaf safnsins má rekja til þess að þann 30. mars 1818 var kynnt í stjórn Hafnardeildar Hins íslenska bókmenntafélags, sem stofnað hafði verið tveimur árum fyrr, bréf frá danska fornfræðingnum og liðsforingjanum Carli Christiani Rafn sem fól í sér tillögu um að stofnuð skyldi nefnd til að „yfirvega, hvörnig alment bókasafn verði bezt stiftað á Íslandi“ ásamt boði um bókagjöf. Bjarni Thorsteinsson forseti deildarinnar þakkaði Rafni frumkvæðið, skrifaði Reykjavíkurdeild félagsins og fól henni að ræða við stiftsyfirvöld. Rafn kom aldrei til Íslands og heimsótti því aldrei safnið sem hann fóstraði af alúð í áratugi. Metnaður Rafns takmarkaðist ekki við Ísland, hann átti einnig stóran þátt í stofnun bókasafna í Óðinsvéum, Kaupmannahöfn, Grænlandi, Færeyjum, Aþenu, Odessa í Úkraínu og í Ástralíu.

Jón Árnason, sem þekktastur er fyrir þjóðsagnasöfnun sína, var ráðinn sem fyrsti bókavörður við Landsbókasafnið árið 1848 og gegndi því starfi þar til hann fór á eftirlaun árið 1887.
Safnið var á dómkirkjuloftinu til 1881 þegar það var flutt í hið nýreista Alþingishús og hlaut þá nafnið Landsbókasafn Íslands. Landsbókasafnið fluttist svo í nýbyggt Safnahús við Hverfisgötu 1909 og var þar í sambýli við önnur söfn lengst af, til 1994 þegar flutt var í Þjóðarbókhlöðuna ásamt Háskólabókasafninu.

Háskólabókasafnið var formlega stofnað árið 1940, en forsaga þess teygir sig nær öld lengra aftur í tímann, eða allt til þess er stofnaður var Prestaskóli árið 1847. Bæði hann og Læknaskólinn (stofnaður 1876) og Lagaskólinn (stofnaður 1908) komu sér upp bókasöfnum sem urðu eign viðkomandi háskóladeilda eftir að Háskóli Íslands var stofnaður 1911.
Nýtt sameinað bókasafn, Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn, var opnað við hátíðlega athöfn í Þjóðarbókhlöðunni fimmtudaginn 1. desember 1994. Þar með varð til stórt og öflugt bókasafn með góðri vinnuaðstöðu fyrir almenning og nemendur við Háskóla Íslands.
Þann 18. apríl 2018 var opnuð sýningin Tímanna safn sem fjallar um sögu safnsins í 200 ár. Á sýningunni er stiklað á stóru í helstu áföngum í sögu safnsins, allt frá hugmynd til þróunar safnsins á hinum ýmsu stöðum eins og Dómkirkjuloftinu, í Alþingishúsinu, Lærða skólanum og Safnahúsinu til Þjóðarbókhlöðunnar og sameiningar við Háskólabókasafnið.

Sæbjörg
bb@bb.is