Karlarnir á Ólakaffi söfnuðu nærri fjögurhundruð undirskriftum

"Hann hefur bjargað lífi okkar allra," segja mennirnir í Ólakaffi um Þorstein Jóhannesson.

Þau stórtíðindi hafa borist að ofurkarlarnir í Ólakaffi á Ísafirði hafa skilað af sér undirskriftalista til Gylfa Ólafssonar, forstjóra Heilbrigðisstofnunnar Vestfjarða, þess efnis að þeir og fleiri vilja fá Þorstein lækni aftur til starfa. „Það er allavega hægt að nota okkur í eitthvað svona,“ sagði Óli málari og hló dálítið þegar blaðamaður leit við á Ólakaffi til að fá fregnir af undirskriftalistunum. Á fjórðahundrað undirskriftir söfnuðust í heildina og auðsjáanlegt að margir vilja fá Þorstein aftur vestur. Tveir undirskriftalistar töpuðust þó, öðrum var stolið og hinum var hent fyrir slysni segir bátasmiðurinn Beggi Ara.

„En við erum ekkert að meina að við viljum endilega að Þorsteinn verði yfirlæknir aftur,“ sögðu Óli, Beggi og Steini Lyngmo sem þarna voru staddir. „Við viljum bara fá hann aftur, hvort sem það er sem venjulegan lækni eða að hann opni sjálfur stofu. Það eru hópar af fólki héðan að fara á Akranes til hans og við viljum bara spara þeim sporin,“ segja kallarnir. „Nú er bara að bíða og sjá,“ bættu þeir við og það er alveg á tæru að blaðamaður á eftir að kíkja oftar í Ólakaffi til að fá sögur frá þessum mönnum sem lifað hafa tímana tvenna.

Sæbjörg
bb@bb.is

DEILA