Íslandsmótið í hrútadómum sunnudaginn 19. ágúst

Sigurvegararnir frá því í fyrra: Guðbrandur Sverrisson á Bassastöðum, Árný Huld Haraldsóttir á Bakka í Reykhólahreppi og Ragnar Bragason á Heydalsá. Mynd: Dagrún Ósk.

Mikið hefur verið um að vera á Sauðfjársetrinu á Ströndum í sumar, margvíslegar uppákomur og viðburðir. Framundan er svo stærsta samkoma ársins, Íslandsmeistaramótið í hrútadómum, sem verður haldið sunnudaginn 19. ágúst og hefst kl. 14:00 í Sævangi við Steingrímsfjörð.

Ester Sigfúsdóttir framkvæmdarstjóri Sauðfjársetursins segir að undirbúningur fyrir helgina gangi mjög vel: „Jafnan er góð þátttaka í hrútadómunum, en keppt er bæði í flokki þaulreyndra hrútadómara og líka í flokki óvanra og hræddra hrútaþuklara. Þetta er alltaf mjög skemmtilegt svo við erum bara ofsa spennt“ segir Ester hress.

Fjör á Íslandsmeistaramótinu í Hrútadómum. Mynd: Dagrún Ósk.

Að venju verður kjötsúpa á boðstólum og kaffihlaðborð allan liðlangan daginn. Einnig er stórskemmtilegt happdrætti og eru líflömb í vinning. Kostar miðinn 500 kr. og geta þeir sem komast ekki á staðinn keypt sér miða í gegnum Facebook síðu Sauðfjársetursins eða hjá Ester í síma 693-3474. Vinningar í happdrættinu eru hrútur frá Ernu Fossdal og Jóni Stefánssyni á Broddanesi, hrútur frá Barböru Guðbjartsdóttur og Viðari Guðmundssyni í Miðhúsum, hrútur frá Hafdísi Sturlaugsdóttur og Matthíasi Lýðssyni í Húsavík, gimbur frá Lilju Jóhannsdóttur og Guðbrandi Sverrissyni á Bassastöðum og gimbur frá Indriða Aðalsteinssyni á Skjaldfönn sem orti vísu með sínu líflambi:

Ef þig heillar flekkótt fé,
finnst sá litur bestur sé.
Eina gimbur á ég hér
sem eflaust myndi líka þér.

Á síðasta ári sigraði Guðbrandur Sverrisson á Bassastöðum í flokki vanra, í öðru sæti var Árný Huld Haraldsóttir á Bakka í Reykhólahreppi og í þriðja sæti varð Ragnar Bragason á Heydalsá.

Á Sauðfjársetrinu eru nú uppi tvær sérsýningar, fyrir utan fastasýningu safnsins sem ber yfirskriftina Sveitafólk og sauðfé á Ströndum. Á listasviðinu er sýningin Álagablettir og í sérsýningarherbergi er sögusýningin Sumardvöl í sveit. Frítt er á allar sýningar Sauðfjársetursins á sunnudeginum. Í haust verður opnuð ný sýning á Sauðfjársetrinu og tengist sú sýning 100 ára fullveldisafmæli þjóðarinnar og hefur yfirskriftina Strandir 1918.

Dagrún Ósk
dagrun@bb.is

DEILA