Gufudalskirkja 110 ára í haust

Kristinn Bergsveinsson

Þó að fólk sé ekki tölvutækt, þá má bjarga sér á ýmsan hátt ef það er efni sem einstaklingar vilja gjarnan koma á framfæri við lesendur BB. Þannig reddaði Kristinn Bergsveinsson sér en hann fór einfaldlega í stjórnsýsluhúsið á Reykhólum og bað þau að skanna inn og senda BB handskrifaða grein. Má segja að greinar sem fengnar eru með þessum hætti séu mun dýrmætari en annað efni sem berst vefnum og kunnum við Kristni bestu þakkir fyrir. Hér fyrir neðan má lesa grein hans:

Gufudalskirkja er 110 ára nú í haust. Kirkjan er listasmíð. Teiknuð af Rögnvaldi Ólafssyni og yfirsmiður var Jón Ólafsson bróðir hans. Ríkissjóður kostaði smíðina og átti kirkjuna alla tíð. Tryggvi Pálsson var bóndi í Gufudal á þeim tíma og Andrés Ólafsson bóndi á Brekku var formaður Gufudalssóknar. Sóknin náði frá Hjöllum vestur að Kvígindisfirði.

Efnið í kirkjuna kom tilhöggvið og númerað frá Noregi. Meðfylgjandi mynd er tekin líklega um ´95 þegar viðgerðum og málun var lokið. Málari var Jón (föðurnafn ókunnugt) úr Stykkishólmi en kirkjusmiður Aðalsteinn Valdimarsson frá Reykhólum. Kirkjan er nú í eigu og vörslu Minjastofnunnar.

Gufudalskirkja. Mynd: Kristinn Bergsveinsson.

Gróðurhúsið og matjurtagarðurinn voru í einu þáverandi kirkjubónda, Einars Kristinssonar og Sigfríðar Samúelsdóttur.

Árin 1890-1906 voru síðustu prestshjónin í Gufudal Sr. Guðmundur Guðmundsson Húnvetningur og kona hans Rebekka Jónsdóttir frá Gautlöndum. Þau fluttu á Ísafjörð 1906. Hann gerðist ritstjóri Skutuls, málgagns alþýðuflokksins. Þau áttu marga afkomendur sem voru pólitískir framherjar þjóðarinnar.

Kristinn Bergsveinsson

DEILA