Gönguskíðaliðið Team Arnarlax stofnað

Arnarlax styrkti stúlkurnar í Team Arnarlax og var lið þeirra því skýrt eftir fyrirtækinu. Mynd: Arnarlax.

Gönguskíðakonurnar Gígja Björnsdóttir, Sólveig María Aspelund, Anna María Daníelsdóttir
og Kristrún Guðnadóttir æfa allar gönguskíði erlendis. Þær leituðust á dögunum eftir fyrirtæki til að styrkja þær við æfingar sínar. Fiskeldisfyrirtækið Arnarlax hf svaraði kallinu og hefur æfingalið þeirra stúlkna verið skýrt Team Arnarlax í tilefni af stuðningnum. Þorsteinn Másson, starfsmaður Arnarlax, sagði blaðamanni BB að framtak stúlknanna sé til fyrirmyndar og ekki hafi það reynst erfið ákvörðun að styrkja þær.

„Þær höfðu samband við okkur þessar stelpur sem eru allar að æfa gönguskíði erlendis og báðu okkur um aðstoð við þetta, þetta var allt þeirra hugmynd. Og gegn því að styrkja þær þá yrði liðið skýrt eftir fyrirtækinu. Þær ákváðu að stofna lið svo þær gætu æft saman og gert meira úr þessu. Við erum afar ánægð með þetta því við erum í dag að reyna að styrkja íþróttalið og menningu á svæðinu hér og þetta rímaði vel við það. Gaman af því hvað þær eru útsjónarsamar og fara skemmtilega leið við þetta. Við þurftum ekki að hugsa okkur lengi um varðandi það að vera með í þessu.“ segir Þorsteinn.

Í vetur stóð Arnarlax fyrir gönguskíðakeppni á sunnanverðum Vestfjörðum þar sem þátttaka var góð. Aðspurður segir Þorsteinn að þetta nýja verkefni sé í takti við það sem fyrirtækið hefur verið að gera að undanförnu. Gönguskíðamenning er einnig öflug hér á Vestfjörðum. Hægt er að fylgjast með stúlkunum á samfélagsmiðlinum Instagram undir myllumerkinu Team Arnarlax.

Aron Ingi
aron@bb.is

DEILA