Gönguhátíðin í Súðavík gekk vel fyrir sig

Boðið var upp á fjölbreyttar göngur á Gönguhátíðinni í Súðavík um Verslunarmannahelgina. Mynd: Gönguhátíð

Gönguhátíðin á Súðavík var haldin í fjórða sinn síðastliðna Verslunarmannahelgina. Boðið var upp á fjölbreyttar gönguleiðir og var þáttaka góð að sögn Einars Skúlasonar, forsvarsmanns gönguhópsins Vesen og vergangur, sem á í góðu samstarfi við Göngufélag Súðavíkur. „Þetta gekk mjög vel fyrir sig, það var mjög góð mæting og gekk allt að óskum. Auðvitað er alltaf eitthvað smávægilegt, einhver sem misstígur sig eða hruflar en það var ekkert meira en það. Það voru tæplega 200 manns sem voru að ganga og svo var góð mæting á ballið um kvöldið. Það var fullt í samkomuhúsinu í Súðavík, en frítt var þar inn og ballið heppnaðist bara mjög vel.“ segir Einar.

Þetta var í fjórða skiptið sem hátíðin er haldin og segir Einar að nú sé kannski spurning um að skipa undirbúningsnefnd og gera meira úr þessu. „Það er búið að vera frábært samstarf við Göngufélagið í Súðavík. Barði, Anna Lind og Steini Kjartans eru með göngurnar. Ég hef beðið um að fá að leiða göngur en það kemur ekki til greina, það er bara heimafólk sem fær að gera það. Ég er bara í afgreiðslu og upplýsingastörfum þegar ég er þarna fyrir vestan. Venjulega er ég að leiða göngur en ekki þarna, ég styð bara við bakið á þeim sem eru að leiða göngur og það hefur gengið mjög vel. Það er gaman þegar heimamenn eru að leiða göngur og segja sögur af svæðinu, frá liðnum tíma og sögur frá eigin brjósti. Það er svona kjarninn í þessu.“ segir Einar að lokum.

Aron Ingi
aron@bb.is

DEILA