Gönguhátíð í Súðavík um Verslunarmannahelgina

Gönguhópurinn Vesen og Vergangur. Mynd: Aðsend.

Næstkomandi helgi verður boðið upp á gönguhátíð í Súðavík. Einar Skúlason, forsvarsmaður gönguhópsins Vesen og Vergangur sagði blaðamanni BB að þetta sé í fjórða skiptið sem Göngufélag Súðavíkur og gönguklúbburinn Vesen og Vergangur sé með samstarf varðandi gönguferðir um Verslunarmannahelgina.

„Þetta eru bæði stuttar ferðir eins og til dæmis bæjarrölt og farið inn í Valagil og annað. Og svo eru líka lengri ferðir, alveg dagsferðir eins og frá Álftafirði yfir í Önundarfjörð og farið upp á Kofra og upp á Gleiðarhjalla. Það ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi, bæði vanir og óvanir. Það ættu til að mynda allir að geta farið í bæjarröltið.“ segir Einar.

Veðurspáin er hagstæð um helgina og leggst afar vel í Einar. „Það er frábær spá fyrir helgina, kominn tími á það. Síðustu verslunarmannahelgar hafa verið slæmar og þá glumdi í fjölmiðlum að versta veðrið væri á Vestfjörðum en núna lítur þetta bara mjög vel út. Við verðum líka með ýmislegt á kvöldin, eins og tónleika og á laugardagskvöldið verður ball.“ segir Einar að lokum og bendir á að dagskrá hátíðarinnar sé á síðunni www.sudavik.is og um að gera að fylgjast með.

Aron Ingi
aron@bb.is

DEILA