Gáfu glæsilegt ómtæki á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða

Í gær afhenti Kvenfélagið Sunna nýtt ómtæki á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða en konurnar í félaginu, ásamt öðrum, hafa safnað fyrir tækinu í meira en ár. Það var því mikil veisla þegar tækið kom loksins og gleðin skein úr hverju andliti í matsal sjúkrahússins. Gylfi Ólafsson forstjóri Heilbrigðisstofnunnar Vestfjarða tók fyrstur til máls á þessari athöfn og hann byrjaði á því að þakka fyrir það góða starf sem unnið er í sjálfboðavinnu við að safna fyrir tækjum af þessu tagi.

Hann sagði ennfremur: „Án þessa stuðnings væri erfitt að tækjabúa stofnunina en þetta sýnir líka hvað stofnun eins og þessi er mikilvæg í hugum fólks og hvað við þurfum að vanda okkur vel sem vinnum hér. Við þurfum að tryggja það að þjónusta okkar sé í samræmi við þær væntingar sem gerðar eru til stofnunarinnar.“ Gylfi lýsti yfir miklu þakklæti fyrir hönd stofnunarinnar fyrir það óeigingjarna starf sem þær lögðu í þessa söfnun. „Kvenfélagskonur leiddu þessa vinnu við að safna um 8 milljónum, Úlfssjóður aflaði rúmra 3 milljóna til að loka þessari fjárfestingu og hér erum við komin með fullkomið ómtæki og fullkomna staðfestingu þess að hjörtu ykkar slái í takt fyrir því að þessi stofnun sé góð og hún sé vel tækjum búin og starfsfólkið hafi tækifæri til að sinna sínu starfi sem best,“ sagði Gylfi.

Þá tók Álfhildur Jónsdóttir til máls fyrir hönd Kvenfélagsins Sunnu í Ísafjarðardjúpi. Í Sunnu eru nærri 30 meðlimir og þar koma sumarhúsakonur sterkt inn. Kvenfélagið Sunna hefur áður safnað fyrir þremur hjartastuðtækjum sem eru á Litlabæ í Djúpinu, í Heydal og Vigur. Álfhildur sagðist vera gríðarlega stolt af öllum kvenfélagskonunum og sagði: „Það má svo sannarlega segja að þegar vestfirskar konur koma saman þá býr í okkur þvílíkur jötunkraftur að ekkert fær okkur stöðvað í að aðstoða samfélagið okkar. Kærar þakkir allar saman fyrir ykkar vinnu og framlag undanfarin ár. Kæru heilbrigðisstarfsmenn, velgjörðarmenn og kvenfélagskonur. Þessi vegferð hófst fyrir ári síðan á góðum fundi í Litlabæ þegar ákveðið var að safna fyrir ómtæki. Og sem betur fer datt engri okkar í hug að slíkt tæki myndi kosta rúmar 12 milljónir. Af stað var haldið í þetta mikla langhlaup og þá er nú gott að vera í góðra vina hópi skemmtilegra kvenna, sem hver talar í kapp við hvor aðra. Við viljum þakka þeim fyrirtækjum og stofnunum sem hjálpuðu okkur, Kiwanisklúbbnum, stöllunum í Stöndum saman Vestfirðir, Úlfssjóði og Kvenfélaginu Von á Þingeyri, Kvenfélagi Mýrarhrepps, Sunnu í Ísafjarðardjúpi, Brynju á Flateyri, Ársól á Suðureyri, Hvöt í Hnífsdal, Hlíf á Ísafirði og Kvenfélaginu Brautin í Bolungarvík. Allir þessir aðilar tóku þátt af miklum myndarskap. Takk kærlega fyrir. Kæra starfsfólk við vonum að þetta tæki nýtist ykkur vel,“ sagði Álfhildur og það leyndi sér ekki hversu stolt hún var af sínum konum í kvenfélögunum.

Mynd: Halldór Sveinbjörnsson.
Mynd: Halldór Sveinbjörnsson.
Mynd: Halldór Sveinbjörnsson.
Mynd: Halldór Sveinbjörnsson.
Mynd: Halldór Sveinbjörnsson.
Mynd: Halldór Sveinbjörnsson.

Á eftir Álfhildi steig Súsanna læknir á stokk og lýsti eiginleikum tækisins en ómtæki er ekki bara ómtæki og flestir halda kannski að það sé bara fyrir ófrískar konur. Súsanna er uppalin sem læknir á slysadeild og hún sagði að hún hefði verið þekkt þar, fyrir að draga tæki af þessu tagi á eftir sér hvert sem hún fór. „Við notum ómtæki mjög mikið og við allar bráðagreiningar. Þegar fólk kemur inn á slysadeild þá er það fyrsta sem við gerum er að óma það.“ Hún sagði einnig að þetta tæki sem nú væri komið, væri allra flottasta gerð og á því væru allir þeir hausar sem þau þyrftu á að halda. Það væri sérstakur haus til að óma ófrískar konur, haus fyrir hjartalækna og svo framvegis. Og síðast en ekki síst þá fengu þau hitastatíf í bónusgjöf með tækinu en það þýðir að gelið sem er notað við að óma verður ekki lengur kalt. Súsanna fór erlendis til að velja tækið og láta útbúa þannig að best hentaði á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða. Það er því mikill fengur að hafa lækna á svæðinu sem helga sig starfinu á þennan hátt og mikill fengur að hafa konur sem vilja leggja á sig fjáraflanir af þessu tagi, svo sjúkrahúsið sé eins vel búið og hægt er.

Sæbjörg
bb@bb.is