Forsetinn kemur á skólasetningu Lýðháskólans

Á bæjarráðsfundi Ísafjarðarbæjar 20. ágúst var lagt fram bréf frá Helenu Jónsdóttur, skólastjóra Lýðháskólans á Flateyri, þar sem óskað var eftir gjaldfrjálsum afnotum á íþróttahúsinu á Flateyri vegna skólasetningar í september.

Samkvæmt bréfinu frá Helenu hefur forseti Íslands boðað komu sína á skólasetninguna, auk sveitarstjórnarfólks, ráðherra og alþingismanna. Þess utan er gert ráð fyrir að töluverður mannfjöldi sæki samkomuna en Lýðháskólinn fór þess á leit að fá afnot af húsinu helgina 21.- 23. september fyrir setninguna.

Lýðháskólinn óskaði einnig eftir endurgjaldslausum afnotum af íþróttahúsinu í alls 10 klst á viku skólaárið 2018-2019 fyrir íþróttaiðkun og viðburði tengda skólanum. Forsvarsfólk skólans vill þó gæta þess að íbúum Flateyrar og nærliggjandi sveitarfélaga verði einnig boðið að taka þátt svo aðstaðan nýtist fleirum enda sé tilgangurinn að stuðla að heilbrigðri og jákvæðri samveru í bæjarfélaginu.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar tók vel í þessar óskir og samþykkti þær, að því gefnu að viðburðirnir rúmist innan starfssemi íþróttahússins.

Sæbjörg
bb@bb.is