Forsetafrúin lét vel af Tungumálatöfrum

Dagana 6.-11. ágúst var námskeiðið Tungumálatöfrar, námskeið fyrir 5-11 ára fjöltyngd börn, haldið í Edinborgarhúsinu á Ísafirði. Námskeiðinu er ætlað að örva íslenskukunnáttu þar sem íslenska er annað mál barnanna eða eitt af mörgum tungumálum. Á námskeiðinu er lögð áhersla á að börn sem búa erlendis geti ræktað tengsl sín við Ísland og skapað tengingar við börn sem búa á Íslandi.

Forsetafrúin Eliza Reid var viðloðandi námskeiðið með dóttur sinni og lét vel af á Facebook síðu sinni en hún skrifaði:
„Á sama tíma og fólk fór í Gleðigöngu í Reykjavík í gær, nutum við dóttir mín sólar og sælu á Ísafirði, og tókum þátt í annars konar gleðiviðburði í nafni fjölbreytni og frelsis. Þriðja árið í röð sótti ég Tungumálatöfra, vikulanga vinnustofu um fjöltyngi. Flest barnanna þar búa annað hvort á Íslandi og eiga sér annað móðurmál en íslensku eða þá að þau eru íslenskumælandi en búa erlendis. Á lokadeginum ganga allir saman í gegnum bæinn og fleyta svo litlum trébátum út á höfnina. Alls kyns kræsingar voru líka á boðstólum, upprunnar frá Sýrlandi, Tælandi, Írak, El Salvador, Litháen, Nígeríu og víðar. Til hamingju allir sem stóðu að þessum frábæra viðburði.“

Aðstandendur námskeiðsins eiga mikið hrós skilið en af þeim er það að frétta að Isabel Alejandra Díaz sem hefur verið verkefnastjóri Tungumálatöfra mun láta af því starfi vegna anna en verða þó áfram meðlimur Töfraráðsins. Áætlað er að skipa í Töfraráðið á næstu vikum en það mun verða stjórninni til halds og trausts. Laugardaginn 11. ágúst stýrði Eliza Reid fundi um verkefnið og þá var ákveðið að þriggja manna framkvæmdastjórn myndi vinna að stofnfundi fyrir félag sem héldi utan um Tungumálatöfra í framtíðinni. Anna Hildur Hildibrandsdóttir er formaður stjórnarinnar en auka hennar sitja Matthildur Helgadóttir og Jónudóttir og Vaida Bražiūnaitė í henni.

Sæbjörg
bb@bb.is