Fjöldi lausra starfa á Vestfjörðum

Tálknafjörður.

Þó atvinnuleysið sé ævintýralega lítið á Vestfjörðum þá er samt hægt að finna vinnu ef áhugi er fyrir því. Það er nefnilega þannig að ef fólk vill vinna, þá fær það vinnu. Til dæmis eru laus örlítil staða í Félagsmiðstöðinni Ozon á Hólmavík og fyrir þá sem eru ævintýragjarnir og vilja henda sér út í rekstur á vinsælu veitingahúsi þá er Café Riis til sölu á sama stað.

Það er mikið að gerast í Bolungarvík og svo gaman að búa þar, að enginn flytur sjálfviljugur í burtu. Þess vegna vantar einungis starfsfólk í Kjörbúðinni, eða Einarsbúð eins og hún er víst kölluð hjá heimamönnum og mögulega vantar líka starfsfólk í nýja fína Víkurskálann.

Á Ísafirði væri hægt að vinna í sundlauginni, sem stuðningsfulltrúi í Grunnskólanum eða í búsetuþjónustu fatlaðra og svo vantar alltaf dagforeldra þar. Þá er Heilbrigðisstofnun Vestfjarða einnig að leita að mannauðs- og rekstrarstjóra á Ísafirði, sem og fjármálastjóra. Á Patreksfirði, en hjá sömu stofnun, vantar bæði hjúkrunarstjóra og hjúkrunardeildarstjóra.
Á Flateyri er Bryggjukaffi til sölu en það hefur getið sér góðan orðstír og fastan kúnnahóp úr 101 Reykjavík. Þar má fá dýrindis fiskisúpu og kaldan með og reksturinn bíður hreinlega eftir sniðugu fólki sem langar að skapa sér öðruvísi framtíð í góðu þorpi, rétt eins og Cafe Riis á Hólmavík.

Tálknafirði skortir svo heilan sveitarstjóra og sá eða sú sem ræðst í verkið verður ekki svikinn af búsetunni þarna í lognkyrrum firðinum, þar sem dásamlegt er að vera. Nú ef fólki hugnast ekki að býsnast í sveitarstjórnarmálum en langar samt að vinna á Tálkna þá er alltaf hægt að sækja um í sundlauginni en þar vantar sundlaugarvörð í vetur.
Vesturbyggð er víðfeðm og eitthvað um störf eins og gengur. Þar vantar umsjónarkennara og stuðningsfulltrúa í Patreksskóla og stuðningsfulltrúa í Frístund þar sem vantar einnig starfsmann. Svo vantar Lögregluþjón en heyrst hefur að hvergi sé ljúfara að vera í löggunni heldur en á Patró. Klefarnir eru víst svo kósí og sjaldan notaðir.
Þá vantar starfsmann í félagsþjónustuna á Læk á Bíldudal, en þar fer fram félagsstarf fyrir aldraða. Bíldudal vantar einnig afleysingamanneskju í íþróttamiðstöðina Byltu.

Það er gott að vera á Reykhólum og einhvernveginn virðist alltaf vera hlýtt þar. Nú ef ekki þá má bara leggjast flatur í Teigskóg og skýla sér þannig fyrir vindum og veðrum. En svo mörgum finnst gott að vera þarna að einungis eitt starf er á lausu hjá hreppnum. Það er við ræstingar og aðhlynningu á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Barmahlíð. Hjá Þörungaverksmiðjunni vantar svo alltaf véla- og verkstæðisfólk en að öðru leyti er það árstíðabundið hvað vantar af fólki þar.

Sæbjörg
bb@bb.is

DEILA