Fiskibúð Kára

Það eru mikil forréttindi hjá okkur Ísfirðingum að hafa fiskibúð í bænum. Það er liðin tíð að hægt sé að labba sig niður á bryggju og sníkja sér ýsu í soðið hjá sjómönnum við löndun. Hjá Kára er hægt að velja úr miklu úrvali á lostæti úr sjónum. Hægt er að velja á milli margra tegunda og allt frá slægðum fiski upp í tilbúna fiskrétti sem eru tilbúnir í ofninn. Boðið er upp á ýsu, þorsk, skarkola, steinbít, rækju, humar, sólkola, lúðu, karfa, regnbogasilung, bleikju, lax og karfa. Þorskurinn getur verið flakaður, saltaður, þurrkaður og eins er boðið upp á gellur og tilbúna rétti. Ýsan er flökuð eða hökkuð og eins er oft boðið upp á hana nætursaltaða. Rækjan er frá Kampa og er seld uppþýdd eftir vigt. Stundum er boðið upp á hákarl, reyktan rauðmata og harðfiskur frá Finnboga er alltaf í borðinu. Á fimmtudögum og föstudögum er boðið upp á sushi í bökkum; nigiri og maki rúllur.

Skarkoli er einnig kallaður rauðspretta, vegna rauðra/svartra bletta á bakinu. Hann var lengi vel okkar mikilvægasta flatfisktegund. Kolinn hrygnir aðallega í hlýsjónum sunnan og vestanlands en einnig í kaldari sjó norðanlands. Norðanlands hefst hrygning skarkola í apríl. Kolinn syndir sem seiði upp á rönd með augun á sitthvorri hliðinni, en síðan færist auga yfir og þau lenda bæði á dökku hliðinni og hann tekur upp á því að synda flatur. Skarkoli er veiddur í dragnót, botnvörpu og á línu. Kolinn hjá Kára er veiddur á línu sem þykir besti fiskurinn. Fituinnihald kola er um 12,8 %, en er breytilegt eftir árstíma. Hann safnar fitu í holdið til að undirbúa hrygningu, og einmitt á þessum tíma í ágúst er hann sem feitastur,þverhaldar þykkur og einstakt ljúfmeti. Fyrir utan hollustuna en þessi fita stútfull af Omega 3 fitusýrum. Hrygningasvæði skarkola er m.a. við Kolluál í Breiðafirði og hafa sérfræðingar Hafró rannsakað hegðun hans með merkingum og endurheimtum. Eitt merkilegt hefur komið í ljós við þær rannsóknir, og komið í ljós að hængurinn er að mörgu leyti líkur karlpeningnum; hann mætir fyrstur á ballið og bíður eftir að hrygnurnar láti sjá sig og eru síðastir heim. Þeir sem ekki finna sér spúsu hanga eftir á hryggningarslóðinni þegar öllu er lokið og reyna fram í hið ítrasta; svona eins og karlinn sem hangir vonsvikinn eftir að ballinu líkur og trúir ekki að hann þurfi að fara einn heim.

Þorskurinn er okkar mikilvægasta fisktegund. Hann getur orðið allt að 30 ára en algengt er að veiða hann frá fjögurra til sjö ára gamlan. Þorskurinn er algengur allt í kringum landið, er botnfiskur en leitar upp í sjó í fæðisleit. Hrygningartími hans er frá febrúar og fram í apríl. Þorskurinn safnar orku til framleiðslu á kynfærum í lifrina en ekki í vöðva eins og t.d. kolinn. Fituhlutfall í vöðva er um 0,6% og telst þorskur því magur fiskur. Þorskur þykir lakara hráefni eftir hrygningu og nær ekki góðum holdum fyrr en í lok júlí eða byrjun ágúst. Helsta fæði þorsksins er loðna og er stofnstærð hans mikið háð viðkomu loðnustofnsins.

Ýsa er jafnframt magur fiskur með sama fituhlutfall og þorskur. Hún getur orðið allt að 15 ára gömul og náð allt að 14 kg. Ýsa lifir á botndýrum, marflóm, sniglum og smáfiskum. Þorskur og ýsa eru veidd í flest veiðarfæri; troll, línu, dragnót og handfæri.

Bleikja er alin í köldu ferskvatni og er Ísland lang stærsti framleiðandi í heimi. Hún dregur nafn sitt af rauðbleikum litum á kviðnum og er sá ferskvatnsfiskur sem lifir nyrst og heldur of til í köldum vötnum sem ná ekki að botnfrjósa. Bleikja er einstaklega góður matfiskur,  með lágu kólesteróli og er mettuð Omega 3 fitusýrum, enda fituinnihald um 12,1%. Bleikjan hjá Kára kemur frá Magnúsi í Tungu í Tálknafirði.

Lax er verðmætasti eldisfiskur í heiminum í dag og er Íslensk framleiðsla einstaklega heilnæm með lægstu mælingar á eiturefnum eins og díoxín, og PCB efnum, sem sýnir að íslenskur eldisfiskur er mikil gæðaafurð og uppfyllir ítrustu manneldiskröfur heilbrigðisyfirvalda. Laxinn er feitur fiskur, um 11,9% fituinnihald og inniheldur mikið af Omega 3 fitusýrum. Laxinn er stífur fiskur sem auðveldlega þolir meðhöndlun við eldun, t.d. að vera grillaður. Laxinn er einnig umhverfisvænasta matvæla framleiðsla sem þekkist, með lágmarks sótspor við framleiðslu, enda er hann alinn upp við þyngdarleysi. Miklar vonir eru bundnar við framleiðslu á laxi á Vestfjörðum og hefur laxeldi þegar snúið vörn í sókn í atvinnulífi fjórðungsins.

Að lokum er rétt að segja frá rækju norðursins sem er pilluð og fryst hjá Kampa á Ísfirði. Lífsferill rækjunnar er sérstakur þar sem hún skiptir um kyn við 2-6 ára aldur, byrjar sem karl en endar sem kvenkyn með frjóguð hrogn. Eflaust væru mannheimar aðrir ef við hefðum verið sköpuð í þeirri mynd og jafnréttisbaráttan önnur? Saga Ísafjarðar er samofin veiðum og vinnslu rækju, en tilraunaveiðar á rækju hófust 1924 í Ísafjarðardjúpi. Þá var hún kölluð „stóri kampalampi“ og óhætt að segja að íbúum þótti lítið til hennar koma í upphafi og höfðu engan áhuga á að leggja sér hana til munns. Skrifari átti skemmtilegan málsverð með tveimur innfæddum mönnum í Afríku þegar hann starfaði þar fyrir áratug. Annar félaginn benti á rækjur sem boðið var upp sem forrétt og leist ekkert á þessa marfló. Hinn var kjarkaðri og lét sig hafa að pilla og smakka, og yfir andlit hans færðist ánægju bros. „Þetta er mjög gott og bragðast alveg eins og engipretta“ sagði hann.

Í horninu hjá Kára er kæliskápur með framleiðslu frá Súgfiska fyrirtækinu Fisherman, en meira um það seinna.

Viðskipavinir Kára geta valið úr öllum þessum tegundum af lystisemdum hafsins en eru reyndar skildir eftir með valkvíða um eldunaraðferð. Þá er bara að gúgla góða uppskrift eða láta ímyndunaraflið ráða för. Ekki sakar að koma við hjá Snorra í næstu búð og fá eitthvað gott með til að renna lystisemdunum niður og þá breytist málsverðurinn í unað.

 

 

Heimildir Fiskbókin – Matís

Gunnar