Fisherman á Suðureyri

Fyrirtækið Fisherman rekur umfangsmikla starfsemi á Suðureyri og í Reykjavík undir vörumerkinu „Fisherman“. BB brá sér í heimsókn í Súgandafjörð og hitti eiganda og framkvæmdastjóra fyrirtækisins, Elías Guðmundsson.

Skrifstofa Fishermen er í gömlu húsi á eyrinni, í klasa sem fyrirtækið rekur hina ýmsu starfsemi. Við hliðina við aðalgötu bæjarins er matsölustaður og handan götunnar er kaffihús. Í kaffihúsinu er jafnframt  hótelmóttaka ásamt gestamóttöku í matarferðir sem fyrirtækið skipuleggur. Hótelið er í húsum í nágrenninu og nýlega opnaði Fisherman nýlenduvöruverslun sem þjónustar bæði bæjarbúa og ferðamenn. Harðfiskhjallur er hluti af ferðaþjónustu fyrirtækisins og skammt þar frá hefur Fisherman opnað framleiðslueldhús þar sem framleiddar eru fiskréttir fyrir neytandamarkað undir vörumerki fyrirtækisins. Einnig rekur Fisherman fiskisjoppu við Hagamel í Reykjavík þar sem framleiddir eru og seldir skyndibitar úr sjávarfangi ásamt heimsendingu og þjónustu við fyrirtæki á Reykjavíkursvæðinu.

Við Hagamel voru einnig framleiddir fiskréttir í neytandaumbúðum til að þjónusta Hagkaup, en vegna mikillar eftirspurnar eftir vörum fyrirtækisins var ákveðið að flytja þá starfsemi til Suðureyrar. Fisherman keypti bensínsjoppuna og búið er að breyta henni í framleiðslueldhús og þar eru nú um 5-6 starfsmenn að framleiða ýsu í raspi, laxasagna, plokkfisk,fiskibollur, fiskisósur og margt fleira. Til stendur að setja nýjar vörur á markað fyrir m.a. skólamötuneyti þar sem boðið verður upp á hollar fiskivörur fyrir fólk með mjólkur og glútenofnæmi. Þó enn standi bensíndælan fyrir utan gömlu sjoppuna hefur hún fengið nýtt hlutverk með atvinnu- og verðmætasköpun. Það er styrkleiki þessarar framleiðslu að hafa gott samstarf við fiskvinnslu Íslandssögu sem útvegar nýtt og ferskt hráefni. Vörur Fisherman eru seldar í Hagkaupum og einnig hjá Kára fisksala á Ísafirði ásamt því að þjónusta mötuneyti um allt land. Framleiðslustjóri í vinnslunni er Jón Arnar Gestsson sem er vel þekktur kokkur og framleiðslumaður.

Ferðaþjónusta er mikilvægur þáttur í starfsemi Fisherman. Þegar blaðamaður BB var staddur á Suðureyri var stöðugur straumur farþega af skemmtiferðaskipi sem voru í upplifunar og matarsmökkunar ferð um þorpið á vegum fyrirtækisins. Fisherman rekur sex 50 manna rútur og tekur á móti allt að 500 manns á einum degi. Ferðamenn á vegum Fisherman fá gönguferð um þorpið þar sem sagðar eru sögur og koma við í harðfiskhjallinum þar sem ýsa er barin á steini og þeim gefið að smakka. Síðan er kíkt við í framleiðslueldhúsinu þar sem þeir fá að smakka fiskibollur með tartarsósu. Gengið er um höfnina á Suðureyri og síðan farið í heimsókn í fiskvinnslu Íslandssögu þar sem gestir fá að skoða vinnsluna. Að lokum er komið við á veitingastaðnum þar sem plokkfiskur er eldaður fyrir framan þá og þeim gefið að smakka.

Fyrirtækið er að ljúka smíði á salernisaðstöðu sem byggð er í anda gömlu byggðarinnar á eyrinni og stendur við hliðina á nýlenduvöru versluninni. Handan götunnar hefur fyrirtækið tryggt sér lóð undir byggingar framtíðarinnar til að takast á við nýjar áskoranir og bjóða upp á fjölbreyttari þjónustu við ferðamenn. Um 45 manns starfa hjá Fisherman við hin ýmsu störf allt árið um kring.

Gunnar

DEILA