Fengu járnplötu inn um framrúðuna

Það munaði hársbreidd að járnplata færi í gegnum farþega bílsins.

Í gær lá við stórslysi í Ísafjarðardjúpi þegar tvær manneskjur á leiðinni suður mættu vörubíl með dráttarvél á opnum bílpalli. Mikill vindur var á svæðinu og dráttarvélin ekki vel fest á vagninn sem varð til þess að þak af henni fauk af og inn um framrúðuna á bílnum sem var að koma á móti. „Það munaði bara hársbreidd að platan færi í okkur sem sátum í framsætinu,“ sagði Pálmar Kristmundsson í samtali við BB en hann keyrði bílinn og var nokkuð sleginn yfir þessu sem von er. Pálmar hringdi strax í lögregluna sem mætti á svæðið og tók af þeim skýrslu en vörubílsstjórinn fékk að keyra óáreittur í burtu og án þess að festa farminn betur á vagninn hjá sér. „Lögreglan sinnti okkur frábærlega vel en okkur finnst það frekar skrýtið að maðurinn hafi fengið að keyra óáreittur í burtu með lausan farm á pallinum á meðan að það var tekin skýrsla af okkur,“ segir Pálmar.

Járnplatan sem flaug inn um framrúðu bílsins hjá Pálmari.
Þetta járnarusl lenti einnig á bíl Pálmars.

Lögreglan ók Pálmari og förunaut hans á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða þar sem hlúð var að þeim og glerbrot hreinsuð úr húð þeirra. Bíllinn er aftur á móti gjörónýtur og bíður þess að vera sendur suður til tryggingafélags.

„Fólksbíllinn var mikið tjónaður á framenda, vélarhlíf og framrúðan brotin þegar Lögreglan kom að“, segir Hlynur Snorrason yfirlögregluþjónn á Ísafirði. „Við lítum þetta mjög alvarlegum augum og allir sem sem flytja farm eiga að tryggja að hann sé fastur samkvæmt umferðarlögum.“

Sæbjörg

bb@bb.is

DEILA