Erindi um breytt göngumynstur loðnu í Reykjavík

Loðna sem rak á fjörur. Mynd: Hafdís Sturlaugsdóttir.

Fyrir þau sem eru í Reykjavík á morgun þá er tilvalið að kíkja á fyrirlestur á vegum Háskóla Íslands. Björn Birnir, prófessor í stærðfræði við University of California í Santa Barbara og gestaprófessor við Háskóla Íslands, flytur erindi um göngur loðnunnar og loftlagsbreytingar í stofu 23 í Veröld – húsi Vigdísar föstudaginn 31. ágúst kl. 12-13.

Í lýsingu á erindinu segir að á síðustu 25 árum hafa orðið miklar breytingar á göngumynstrum loðnunnar. Síðasta vetur gerðist það í fyrsta sinn í langan tíma að umtalsverður hluti hrygningarstofnsins hrygndi fyrir norðan land. Í fyrirlestrinum verða raktar þær hitabreytingar sem hafa orðið í straumum í hafinu fyrir norðan Ísland, Labradorhafinu milli Grænlands og Kanada og Barentshafinu fyrir norðan Noreg og Rússland. Í þessum þrem höfum eru loðnustofnar, sem eru stór hluti af fæðu nytjafiska, þar á meðal þorsksins. Þegar meginlöndin hafa hitnað hefur hluti þessara hafsvæða kólnað. Hitnun á landi hefur leitt af sér kólnun í hluta Íshafsins.

Björn mun segja frá samstarfsverkefni Hafrannsóknarstofnunar, Háskóla Íslands og fjögurra landa, Kanada, Íslands, Noregs og Bandaríkjanna, þar sem reynt er að nota loðnustofnana til að mæla gróðurhúsaáhrifin í hafinu. Breytingarnar á göngum loðnustofnanna verða notaðar til að reikna hitabreytinguna í Íshafinu. Það getur gefið til kynna hversu hratt hitinn eykst í Norðurhöfum og hversu hratt Grænlandsjökull gæti bráðnað sem mundi hafa alvarlegar afleiðingar fyrir loftslag á norðurhveli.

Sæbjörg
bb@bb.is

DEILA